2 dagar í mót – Sigurbjörn Hreiðarsson

Sigurbjörn Örn Hreiðarsson er spilandi aðstoðarþjálfari Hauka, annað tímabilið í röð. Hann er einn af leikreyndustu leikmönnum á Íslandi, búinn að spila yfir 300 mótsleiki með meistaraflokki á Íslandi, þar af 300 með Val. 

Nú styttist í að 1.deildin hefjist en fyrsti leikur Hauka í 1.deildinni er gegn Þrótti R. á útivellli, næstkomandi fimmtudag 9.maí klukkan 14:00. Fjórum dögum seinna mætir síðan Haukar, Víking Reykjavík í Borgunar-bikar karla.

Fyrsti heimaleikur Hauka er gegn Grindavík sem féllu úr Pepsi-deildinni. Sá leikur er föstudaginn 17.maí.

Haukar.is heldur áfram að telja niður í fyrsta leik og í dag svarar Ásgeir Þór nokkrum spurningum, um veturinn sem senn fer að ljúka og um komandi tímabil.

Hvernig hefur veturinn farið í liðið, eru liðið á þeim stað núna sem þið þjálfarnir vilduð?

– Veturinn hefur farið bara nokkuð vel í okkur. Hópurinn töluvert breyttur og bara verið vinna í að slípa þetta saman. Vetraraðstæður eru því miður fyrir fótboltan ekki þær bestu en við reynum að gera gott úr því. Liðið er allt að koma til. Í upphafi undirbúningssins þá vorum við ekki að tikka alveg sem lið en það hefur komið hægt og sígandi. Liðið núna er á svipuðum stað og í fyrra á sama tíma. Finnst að við séum að koma upp. Hópurinn flottur og samkeppnin mikil og allt önnur en í fyrra sem hækkar auðvitað standardinn. Menn bíða bara spenntir eftir tímabilinu. 

Hvernig hefur staðan á meiðslum í hópnum verið að undanförnu?

– Meiðslastaðan hefur verið bara svona eins og gengur í stórum  hóp. Höfum verið að glíma við smá væl hér og þar sem tekur þá nokkra daga. Einn leikmaður sem hefur verið meiddur í vetur en er að koma til. Annars eru allir klárir í þessum skrifuðu orðum nema þessi eini.

Hvernig leggst tímabilið í þig?

– Tímabilið leggst mjög vel í mig eins og öll tímabil sem ég hef farið inní. Við eigum að geta gert fína hluti í sumar. Mörg lið eru hinsvegar í sama pakka og við. Mér sýnist stefna í gríðarlega jafnt mót. Við erum að tala um 7-8 50/50 leiki svona eins og ég sé þetta núna. Byrjunin skiptir alltaf miklu en að vera með langtímamarkmið og fara ekki á taugum ef skammtímamarkmiðin klikka inná milli. Þetta er langhlaup og verður að halda út allt mótið. Ef við erum að tala um að fara í efstu deild þá þarf 2 stig útúr hverjum leik. En Ég er bjartsýnn.

Hvernig fannst þér spilamennskan í Lengjubikarnum vera?

– Lengjubikarinn var ekki nógu góður úrslitalega. Við spiluðum við 4 úrvalsdeildarlið og töpuðum tveimur og gerðum tvö jafntefli. Það voru góðir leikir hjá okkur. Svo spiluðum við gegn þremur 1.deildarliðum. Unnum einn, töpuðum einum og gerðum eitt jafntefli. Þar var meira bras á okkur. Leikur liðsins er að koma upp og það er jú sumarið sem skiptir máli. 

Hvernig lýst þér á 1.deildina í sumar? Veistu mikið um styrkleika liðanna?

– Eins og ég talaði um fyrr þá virkar deildin á mig gríðarlega jöfn. Margir 50/50 leikir. Sýnist deildin núna geta verið 9-3 þ.e. 9 lið sem geta öll verið í efri kantinum og svo 3 sem ég tel vera niðri við botninn. Margir fínir spilarar í deildinni sem geta gert ursla, leikmenn sem gætu alveg verið í efstu deild. Hvert lið er þannig að ef þú ert ekki á tánum gegn því þá áttu á verulegri hættu á að tapa. Annað en kannski áður þegar maður gat gengið að einhverjum stigum nokkuð vísum. Svokölluðu minni lið hafa svo mjög sterka heimavelli sem erfitt er að sækja og allt getur gerst.

Hvernig hafa nýju leikmennirnir komist inn í hópinn?

– Nýju mennirnir hafa komið flottir inn. Margir sem áður hafa verið í Haukum og þekkja umhverfið vel. Hafa bara komið heim. Svo aðrir komið annars staðar frá og smollið eins og flísar við rass. Hópurinn er mjög flottur, andinn fínn og menn að taka á því. 

Er ekki eina stefna liðsins, að spila í Pepsi-deildinni 2014?

– Auðvitað stefnir maður alltaf á sigur í hverjum leik og með því þá ætti liðið að spila í Pepsí 2014 EN! Það er ansi margt sem þarf að tikka saman ef það á að takast. Liðið, þjálfarar, áhorfendur, umgjörð og stjórn. Það er ekki nóg að hafa óskhyggju heldur verður að vera EINLÆGUR ÁSETNINGUR ALLRA að vilja fara upp og þora að vinna. Kassan upp og áfram Haukar.

Við þökkum Sigurbirni kærlega fyrir þetta og að sjálfsögðu tökum við undir hans orð, Kassan upp og Áfram Haukar!!!