17 dagar í mót – Sigmar Ingi Sigurðarson

Haukar

Markvörðurinn, Sigmar Ingi Sigurðarson er einn af nýliðunum í meistaraflokks karla í knattspyrnu. Sigmar gekk til liðs við Hauka í vetur frá Breiðablik. Hann er á besti aldri og er spenntur fyrir sumrinu. 

Það styttist í að 1.deildin hefjist en fyrsti leikur Hauka í 1.deildinni er gegn Þrótti R. á útivelli. Eftir 17 daga, fimmtudaginn 9.maí. Fjórum dögum seinna mætir síðan Haukar, Víking Reykjavík í Borgunar-bikar karla.

Fyrsti heimaleikur Hauka er gegn Grindavík sem féllu úr Pepsi-deildinni, en sá leikur er föstudaginn 17.maí.

Haukar.is heldur áfram að telja niður í fyrsta leik og í dag svarar Sigmar Ingi nokkrum spurningum, um veturinn sem senn fer að ljúka og um komandi tímabil. Einnig spyrjum við hann að því hvernig honum hefur líkað í Haukum.

Hvernig leggst tímabilið í þig?

– Tímabilið leggst alveg gríðarlega vel í mig. Við erum með virkilega sterkan og skemmtilegan hóp sem ég hef mikla trú á.

Er ekki komin tilhlökkun að fara æfa á grasi?

– Að sjálfsögðu, sérstaklega þegar maður er búinn að fá nasaþefinn eftir æfingaferðina. Þótt gervigrasið trufli mig ekki neitt þá er þetta allt annað og skemmtilegra sport á grasi.

Hvernig lýst þér á 1.deildina í sumar? Veistu mikið um styrkleika liðanna?

– Ég hef ekki séð mikið til hinna liðanna en það er ljóst að mörg lið ætla sér stóra hluti í sumar. Við höfum spilað við nokkur 1. deildarlið og mér sýnist stefna í mjög jafnt og spennandi mót. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að byrja mótið vel. Að mínu mati eru 5-6 lið sem ætla sér að komast upp um deild. Það verður mikið af erfiðum útileikjum í sumar á Akureyri, Fjallabyggð, Húsavík, Ísafirði og Sauðárkróki

Hvernig hefur þér líkað í Haukum, fyrstu mánuðina? Eitthvað sem hefur komið þér á óvart í hópnum og félaginu?

– Mér líkar rosalega vel í Haukum enda verið afskaplega vel tekið af þessum fagmönnum sem fyrir voru auk þess sem þeir sem hafa bæst við hópinn hafa smollið inn.

Er ekki eina stefna liðsins, að spila í Pepsi-deildinni 2014?

– Það kemur ekkert annað til greina en að vera í toppbaráttu í sumar.

Ég held nú þó að ásamt því að fara upp um deild stefnum við að því að skemmta áhorfendum í sumar með góðum fótbolta og reyna að bæta okkur í fótbolta.