12. apríl, afmælisdagur Hauka

12. apríl, afmælisdagur Knattspyrnufélagsins Hauka.

Hönnun knatthússins lokið og verkið boðið út í lok þessa mánaðar. Framkvæmdir við nýtt knatthús hefjast í lok sumars.
Eins og venja er á afmælisdegi félagsins var öllum Haukafélögum og velunnurum félagsins boðið að þiggja kaffiveitingar og gleðjast yfir löngu og farsælu starfi félagins, en Knattspyrnufélagið Haukar var stofnað árið 1931 og fagnar því 91 árs afmæli við þessi tímamót. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri, ásamt nokkrum bæjarfulltrúum heiðruðu samkomuna, en bæjarfulltrúar hafa í áranna rás staðið dyggilega að uppbyggingu íþróttamannvirkja og skapað með því góða umgjörð til eflingar íþrótta- og æskulýðsstarfi. Það var því afar ánægjulegt þegar Rósa, bæjarstjóri, kynnti að senn myndi myndarlegt knatthús rísa á íþróttasvæði Hauka. Hönnun knatthússins væri lokið og framkvæmdin boðin út í lok aprílmánaðar. Er reiknað með að framkvæmdir við knatthúsið hefjist í lok sumars. Betri afmælisgjöf frá bæjarstjórn er vart hægt að hugsa sér og tilhlökkun okkar Haukanna er mikil að fá loksins góða og bætta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar.
Góðum afmælisdegi var fagnað með góðu Haukafólki, velunnurum félagsins, og góðum gestum. Hafið þökk fyrir komuna á Ásvelli.
Áfram Haukar.
Magnús Gunnasson
formaður Hauka.