10 flokkur í körfunni í bikarúrslit

Hörkuleikur var í gærkvöldi í undanúrslitum bikar að Ásvöllum í 10.flokki milli Hauka og KR. Haukastrákar byrjuðu leikinn mun betur og voru mjög einbeittir frá fyrstu mínútu og ætluðu sér greinilega að komast í bikarúrslitin.  Haukar höfðu 15 stiga forystu í hálfleik 38-23 og unnu að lokum sigur 63 – 54 eftir spennandi seinni hálfleik.

Haukar hófum leikinn með látum þar sem Ívar Barja, Kristján Sverrisson og Aron Bjarki Ívarsson voru að skora góðar körfur eftir lipurt samspil eða gegnumbrot og náðu Haukar strax í fyrsta leikhluta öruggri forystu. Haukavörnin var mjög öflug í fyrri hálfleik þar sem Kristján Sverrisson var eins og kóngur í ríki sínu í hjarta varnarinnar, tók fjölmörg fráköst og blokkaði skot KR inga.

Ákefð Hauka strákanna í vörninni var greinilega of mikil að mati slakra dómara leiksins sem dæmdu fjölmargar villur á leikmenn Hauka fyrir litlar sakir sem varð til þess að KR ingar voru komnir með skotrétt um miðjan annan leikhluta og héldu þeir sér inni í leiknum með því að skora á vítalínunni. Haukarnir héldu þó öruggri forystu í hálfleik 38-23. 

KR ingar byrjuðu þriðja leikhluta af krafti og náðu að saxa á forskot Haukanna með öflugri pressuvörn allan völlinn. Þá fékk Kristján Sverrisson 3 villur á skömmum tíma fyrir litlar sakir í byrjun þriðja leikhlutans og var þar með kominn með 4 villur og kom hann lítið við inná fyrr en í fjórða leikhluta. KR ingar voru komnir með skotrétt eftir 4 mínútna leik í þriðja leikhluta. Haukar voru að brjóta mikið af sér að mati dómara leiksins í baráttu um boltann undir körfu KR inga og því fengu KR ingar mörg víti i þriðja leikhluta. Að loknum þriðja leikhluta var munurinn á milli liðanna kominn niður í 5 stig í lok þriðja leikhluta enda vörn Haukanna með Kristján Sverrisson utan vallar ekki jafn góð.

Í fjórða leikhluta fóru Haukastrákarnir að ná betri körfum í sókninni og betra flæði í sókninni, Hjálmar Stefánsson átti tvær flottar körfur í fyrri hluta fjórða leikhluta sem héldu KR ingum frá Haukum um tíma. KR ingar náðu muninum milli liðanna niður í eitt stig um miðjan fjórða leikhluta og var farið að fara um fjölmarga áhorfendur Hauka á leiknum. Kári Jónsson tók þá til sinna ráða og setti niður 8 stig í röð fyrir Haukanna og kláraði leikinn. 

Góður baráttu sigur Hauka staðreynd 63-54 þar sem allir Haukastrákarnir áttu góðan leik þó Kristján Sverrisson hafi verið besti maður leiksins bæði í vörn og sókn að þessu sinni. Lið Haukanna er skipað mörgum góðum og gríðarlega efnilegum leikmönnum sem gaman verður að fylgjast með.