Þórunn Bjarnadóttir til Hauka

Þórunn Bjarnadóttir skrifar undir samning við Hauka Haukar hafa fengið liðsstyrk fyrir næstu leiktíð í meistaraflokki kvenna í körfuknattleik en Þórunn Bjarnadóttir fyrrum leikmaður Vals og ÍS skirfaði undir tveggja ára samning við félagið í gærkvöldi.

Þórunn hefur verið lengi í boltanum og er reynslumikill leikmaður. Hún verður því skemmtileg viðbót við annars ungt lið Hauka og nær því að miðla úr reynslubankanum til yngri leikmanna.

Þórunn skoraði 6,7 stig að meðaltali í deildinni á síðustu leiktíð. Auk þess tók hún 5,3 stig og gaf 2,2 stoðsendingar. Þórunn er annar leikmaðurinn sem kemur til Hauka á stuttum tíma en fyrir skemmstu gekk Gunnhildur Gunnarsdóttir til liðs við félagið frá Snæfelli.

Heimasíðan heyrði í Henning Henningssyni þjálfara Hauka við undirskrift og hafði hann þetta að segja.

„Það er frábært að fá Þórunni í Hauka. Hún er góður leikmaður með mikla reynslu og mun jákvætt hugarfar og alþekkt keppnisskap hennar passa mjög vel ínn í góðan hóp Hauka-kvenna. Þórunn mun ekki reyna að taka neitt frá öðrum leikmönnum heldur er hún fyrst og fremst skynsamur leikmaður og frábær liðsmaður. Hún mun klárlega nýtast ungu liði Hauka vel og mun eflaust miðla af mikilli reynslu sinni til yngri leikmanna liðsins. Þórunn er einn reynslumesti leikmaður deildarinnar, hún er búin að vera lykilmaður í mörg ár með ÍS-liðinu sáluga og spilaði sl. keppnistímabil með Val. Hún hefur nú þegar hafið markvissan undirbúning fyrir næsta tímabil á Ásvöllum, þannig að það má búast við Þórunni öflugri í Haukabúningnum næsta vetur. Ég er mjög ánægður með þá tvo leikmenn sem hafa ákveðið að ganga til liðs við Hauka þannig að það er ekki langt í að Haukaliðið verði fullmótað fyrir næsta tímabil.”
Við bjóðum Þórunni velkomna í Fjörðinn.

Sjá einnig:
Viðtal við Þórunni á karfan.is
Gunnhildur til liðs við Hauka