Þórður Jón til AGF

Þórður Jón Jóhannesson ungur og efnilegur knattspyrnuleikmaður hefur gengið til liðs við AGF í Danmörku frá Haukum. Frá þessu var greint á vefsíðu AGF í dag og einnig sendi Jón Björn Skúlason formaður knattspyrnudeildar Hauka frá sér fréttatilkynningu þar sem þetta var staðfest.

Þórður Jón mun því hitta annan Haukamann sem gekk í raðir AGF í fyrra, Arnar Aðalgeirsson og eiga Haukar því tvo atvinnumenn í knattspyrnu.

Fréttatilkynning Jón Björns er hægt að sjá með því að smella á „Lesa Meira“.

Þórður Jón Jóhannesson annar leikmaður Hauka sem seldur er til AGF i Danmörku

Þórður Jón sem er aðeins 16 ára gamall hefur alist upp hjá Haukum en hefur einnig verið fastamaður í U17 landsliði Íslands. Þetta er einn kraftmesti miðjumaður sem Haukar hafa alið lengi og verið einn af burðarásum í yngri flokkum félagsins.

Með markvissri uppbyggingu hefur umgjörð yngri flokka Hauka verið bætt til muna. Lögð hefur verið rík áhersla á að ráða eingöngu fagmenntaða þjálfara í allar stöður bæði hjá yngri flokkum karla og kvenna. Árangur þess starfs sést vel í meistaraflokki karla um þessar mundir þar sem 16-17 ára uppaldir Haukastrákar hafa unnið sér fast sæti í byrjunarliðinu. Með þessa ungu drengi innanborðs hefur náðst frábær árangur og liðið á enn möguleika á sæti í úrvalsdeild að ári. Þetta sýnir að með markvissu uppeldisstarfi er hægt að byggja knattspyrnulið upp innan frá en ekki manna þau að stórum hluta með erlendum leikmönnum. Stefna Knattspyrnudeildar Hauka er að vinna sér inn úrvalsdeildarsæti að nýju hjá báðum kynjum og áður en áratugurinn er líðinn munu þau vera berjast í toppbaráttu efstu deilda.

Markmið Hauka er að halda í sína uppöldu leikmenn og er mikil eftirsjá í þeim ungu leikmönnum sem félagið hefur séð á eftir í atvinnumennsku. Það ríkir hins vegar mikill og góður skilningur innan félagsins að ungir og efnilegir knattspyrnumenn eigi að fá tækifæri úti í hinum stóra knattspyrnuheimi ef þau bjóðast. Fleiri ungir knattspyrnumenn eru á faraldsfæti um knattspyrnuvelli Evrópu um þessar mundir en vonandi getur félagið haldið sem flestum innan herbúða félagsins enda markmið Knattspyrnudeildar skýr.

Haukar vilja þakka Þórði og hans fjölskyldu fyrir frábært samstarf og við vitum að hans verður sárt saknað meðal félaganna enda frábær drengur þar á ferð, jafnt innan sem utan vallar. Við óskum honum velfarnaðar í framtíðinni og hlökkum til að fylgjast með afrekum hans á knattspyrnuvellinum fyrir íslenska landsliðið og AGF.

Jón Björn Skúlason, formaður knattspyrnudeildar Hauka