Út úr bikarnum

Meistaraflokkur kvenna lék sinn fyrsta heimaleik sumarið 2007 en sá leikur fór fram fimmtudaginn 31. maí. Leikurinn var í Visa –bikar kvenna og á móti FH. Fyrir leikinn höfðu bæði lið keppt tvo leiki í 1. deild kvenna A – riðli, FH hafði unnið báða sína leiki en Haukar tapað báðum. Bæði lið eru mjög breytt frá síðasta tímabili og um er að ræða eiginlega ný byrjunalið hjá liðunum sem hafa bæði skipt um þjálfara frá síðasta tímabili.

Byrjunarlið Hauka var þannig skipað að í markinu var Þuríður Sif Ævarsdóttir, í vörninni voru Saga K. Finnbogadóttir(fyrirliði), Eva Dröfn Ólafsdóttir, Lena Rúnarsdóttir og Aðalheiður Þrastardóttir. Á miðjunni voru Björk Gunnarsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Dagbjört Agnarsdóttir, Lovísa Einarsdóttir og Eva Jenný Þorsteinsdóttir. Í fremstu víglínu var Svava Björnsdóttir.

Leikurinn byrjaði heldur rólega og voru bæði lið að þreifa fyrir sér þó voru Hauka stelpur heldur aðgangsharðari þangað til að FH fékk dæmt víti á 24. mínútu. Þá braut Saga K. Finnbogadóttir af sér, Sigríður Guðmundsdóttir fyrirliði FH tók vítið og skoraði af öryggi 0 – 1 fyrir FH. FH jók muninn á 26. mínútu eftir mistök í vörn Hauka og Guðrún Björg Eggertsdóttir náði að pota boltanum innfyrir línuna og staðan orðin 0 – 2.

Sara Bjork Gunnarsdóttir átti gott skot á 28. mínútu af 25 metra færi en skotið fór beint á Ionu Sjöfn Huntingdon-Williams markmann FH. Sara Björk átti aðra tilraun á 33. mínútu en þá fór aukaspyrna hennar yfir. Svava Björnsdóttir hefði getað minnkað munin fyrir Hauka á markamínutunni miklu þeirri 43. en skot hennar úr vítateig FH fór yfir.

Í byrjun seinni voru Hauka mun betri aðilinn og fyrsta skot þeirra átti Eva Jenný Þorsteinsdóttir á 53. mínútu en skot hennar fór framhjá. Á 62. mínútu komst Sigrún Ella Einarsdóttir ein inn í gegn en Þuríður Sif Ævarsdóttir markmaður Hauka varði vel. Sigrún Ella Einarsdóttir komst aftur ein inn í gegn á 66. mínútu en í þetta skipti nýtti hún færið betur og renndi boltanum laglega fram hjá Þuríði Sif í marki Hauka og staðan orðin 0 – 3 fyrir FH. Þetta æri virtist þó vera rangstæða.

Eva Jenný fékk upplagt færi á 83. mínútu þegar hún var ein á móti Ionu Sjöfn Huntingdon-Williams en skot hennar var ekki nógu gott og varnarmenn FH náðu að hreinsa. Mistök urðu í vörn Hauka á 93. mínútu og Sigrún Ella Einarsdóttir nýtti sér það og komst ein inn í gegn og lyfti svo boltanum laglega yfir Þuríði Sif í marki Hauka og niðurstaðan í leiknum 4 – 0 sigur FH stúlkna og þær komnar áfram i bikarnum.

Úrslitin í leiknum sýna ekki rétta mynd af leiknum því Hauka stelpur áttu meira í leiknum en úrslitin gefa til um. Bestar Hauka stúlkna í leiknum voru Eva Jenný Þorsteinsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir en þæt voru heilinn á bak við sóknarlotur Hauka.

Næsti leikur Hauka stelpna er á laugardaginn kemur á Ásvöllum kl. 14:00 einmitt á móti FH og hvet ég sem flesta til að koma og hvetja Hauka til sigurs.