Úrslitakeppnin hefst á morgun: Haukar – HK í fjögurra liða úrslitum

Aron Kristjánsson undirbýr nú lið sitt af kappiÚrslitakeppnin fer af stað á morgun, sumardaginn fyrsta, þegar Haukar taka á móti HK í fyrsta leik þessara liða í fjögurra liða úrslitum N1 deildar karla. Í hinni viðureigninni mætast Valur og Akureyri. Leikur Hauka og HK fer fram á Ásvöllum og hefst kl. 19:30. Liðin hafa mæst fjórum sinnum í vetur og hvort um sig unnið tvo leiki á heimavöllum sínum. Því má búast við hörku viðureign annaðkvöld. Valdimar Þórsson hefur verið atkvæðamestur í liði HK í vetur enda ein allra öflugasta skyttan í deildinni. Sveinbjörn Pétursson, markvörður, á það til að loka markinu á löngum köflum í sumum leikjum eins og Haukastrákarnir fengu að finna fyrir í síðasta leiknum fyrir jól þegar þeir töpuðu sínum fyrsta leik í deildinni á tímabilinu. Það má því ekki vanmeta Kópavogsliðið og mikilvægt að allir Haukamenn mæti tilbúnir til leiks, innanvallar sem utan. Haukafólk er því sérstaklega hvatt til að fagna sumrinu með því að fjölmenna á pallana á Ásvöllum og styðja strákana til sigurs í þessum mikilvæga leik.