Haukar unnu fremur auðveldan sigur á KF á heimavelli sínum, Schenkervellinum í kvöld. Lokatölur urðu 4-0 fyrir heimamenn en hafa verður í huga að í lið gestanna vantaði hvorki fleiri né færri en 6 leikmenn vegna meiðsla og leikbanna.
Fyrstu 20 mínútur leiksins voru afar rólegar og virtist vera sem gestirnir ætluðu að ná að verjast vel í leiknum en þá gáfu þeir frá sér frekar auðvelt mark. Hilmar Geir Eiðsson brunaði þá frekar fyrirhafnarlaust framhjá tveimur leikmönnum KF, lagði boltann út í teiginn þar sem Guðmundur Sævarsson kom á ferðinni og kláraði færið.
Níu mínútum síðar tvöföldu Haukar forystu sínu, var það mark mjög keimlíkt en þó sínu verra fyrir gestina. Einn þeirra traustasti varnarmaður, Milos Glogovac ætlaði þá að skýla boltanum útaf en missti hann til Hilmars Rafns Emilssonar sem þakkaði pent fyrir sig og brunaði stystu leið inn í teig, lagði þar boltann út á Brynjar Benediktsson sem skoraði. Afar ódýrt mark.
Það sem eftir lifði hálfleiks sóttu gestirnir í sig veðrið hægt og rólega á meðan Haukar voru taktískir og bökkuðu aðeins til að halda fegnum hlut en staðan var óbreytt þegar liðin gengu til búningsklefa í leikhléi.
Jafnræði var með liðunum í byrjun síðari hálfleiks en á 59. mínútu gerðu Haukar út um leikinn þegar Andri Steinn Birgisson lagði boltann snyrtilega í fjærhornið úr miðjum vítateig Fjallabyggðarmanna eftir sendingu Brynjars Benediktssonar.
Næstu 25 mínútur eða svo gerðist mjög lítið í leiknum en þá fengu Haukar víti upp úr nánast engu þegar varnarmaður Hauka felldi Hilmar Geir innan teigs. Hilmar Trausti steig á punktinn en Björn Hákon í marki KF varði glæsilega.
Vítaspyrnudómurinn vakti gestina af værum blundi og áttu þeir nokkrar mjög góðar tilraunir að marki Hauka en Sigmar var vel á verði í marki heimamanna ásamt því að þeir björguðu tvisvar á línu.
Það var því nokkuð gegn gangi leiksins á þessum tímapunkti að heimamenn fengu sína aðra vítaspyrnu, nú þegar skotið var í hönd varnarmanns KF innan teigs.
Aftur steig Hilmar Trausti á punktinn og nú skoraði hann auðveldlega.
Skömmu síðar flautaði góður dómari leiksins Vilhjálmur Alvar Þórarinsson til leiksloka og þægilegur sigur Hauka í höfn. Þeir halda því áfram í toppbaráttu að fullum krafti en KF er áfram í harðri botnbaráttu.