„Það er kominn tími á einn sigur,“ sagði Örn Sigurðarson leikmaður Hauka í léttu spjalli við hauka.is og bætti við að menn væru búnir að undirbúa sig vel fyrir þennan leik.
„Við höfum verið að vinna í varnarleiknum hjá okkur á síðustu æfingum og gera léttar áherslubreytingar á sóknarleiknum,“ bætti hann við.
Haukaliðið hefur verið í djúpri lægð undanfarið og nú er kominn tími til að rífa sig upp. „Við ætlum að hittast fyrir leikinn og peppa okkur upp og vonandi náum við að koma kollinum á rétt ról. Ég mun allavega láta finna fyrir mér á blokkinni,“ sagði Örn að lokum mjög spenntur fyrir kvöldinu.
Síðan náði einnig í Pétur Ingvarsson þjálfara og sagði hann að stuðningur í stúkunni væri liðinu gríðarlega mikilvægur. „Við þurfum á gríðarlegum stuðningi að halda í kvöld frá stuðningsmönnum og vonandi sjáum við sem flesta iðkendur í pöllunum í kvöld.“
„Mæting hefur verið sæmileg í vetur en alltaf má gott verða betra,“ bætti Pétur við en Subway og Sbarro hafa tekið þá ákvörðun að bjóða öllum á leikinn.
Síðasti leikur liðsins, gegn KFÍ, fór alls ekki eins og menn bjuggust við en þar náðu KFÍ menn að rífa sig upp og sigra á lokaspretti leiksins. Pétur segir það morgunljóst að menn ætli sér að gera betur en í þeim leik.
„Við ætlum allir að standa okkur betur en í síðasta heimaleik, það er alveg ljóst.“
Sem fyrr þá byrjar leikurinn kl. 19:15 og leikið er á Ásvöllum.
Áfram Haukar.