Halldór Ingólfsson, Jóhann Ingi Guðmundsson, Hulda Bjarnadóttir, Sigurjón Sigurðsson og Aron Kristjánsson eru meðal þeirra sem koma ný inn í hóp þjálfara og aðstoðarþjálfara yngri flokka handboltans fyrir komandi tímabil. Þau bætast við hóp þjálfara á borð við Einar Jónsson, Jens Gunnarsson, Elías Má Halldórsson, Elías Jónasson, Ragnheiði Berg og Albert Magnússon sem öll þjálfuðu yngri flokka síðasta vetur og munu gera það áfram. Barna- og unglingaráð handknattleiksdeildar Hauka leggur mikinn metnað í að hafa á að skipa öflugri sveit faglegra þjálfara til að umgjörð yngri flokka félagsins verði eins og góð og unnt er. Það er félaginu mikil ánægja að bjóða þjálfara velkomna til starfa og við hlökkum til að taka á móti ungum iðkendum á handboltaæfingar í vetur.
Halldór Ingólfsson þarfnast engrar kynningar meðal Haukafólks enda leikmaður og fyrirliði meistaraflokks karla um árabil. Halldór hefur víðatæka reynslu af þjálfun bæði hér innanlands og í Noregi og forysta félagsins er mjög stolt af því að kynna Halldór til starfa sem nýr þjálfari 3. flokks kvenna þar sem hann mun njóta liðsinnis Jens Gunnarssonar. Halldór mun auk þess gegna stöðu aðstoðarþjálfara meistaraflokks kvenna þar sem þó nokkrir leikmenn úr 3. flokki gegna vaxandi hlutverki.
Jóhann Ingi Guðmundsson snýr nú aftur í raðir þjálfara yngri flokka handboltans eftir nokkurra ára fjarveru utan landssteinanna. Jóhann Ingi mun þjálfa 6. og 7. flokk karla í vetur en hann hefur áður þjálfað sömu aldursflokki hjá félaginu auk 4. flokks karla. Það er mjög ánægjulegt að fá Jóa aftur til starfa enda hefur hann margsannað hversu öflugur þjálfari hann er, bæði faglega og félagslega.
Hulda Bjarnadóttir kemur sömuleiðis til baka í þjálfarateymi yngri flokkanna og mun leiða starf yngstu flokka félagsins ásamt Alberti Magnússyni. Þetta öfluga teymi hefur unnið brautryðjendastarf hjá félaginu um árabil og ljóst að yngstu iðkendurnir geta gengið að því sem vísu að starfið í 8. flokkum félagsins verður bæði skemmtilegt og lærdómsríkt. Við bjóðum Huldu velkomna til starfa á ný.
Sigurjón Sigurðsson verður aðalþjálfari 5. flokks kvenna í vetur. Sigurjón þekkja margt Haukafólk enda leikmaður félagsins um árabil og þanda rödd hans má heyra á flestum Haukaleikjum þar sem hann lýsir því sem fyrir augu ber. Sigurjón hefur lengi veitt yngri leikmönnum félagsins leiðsögn og ánægjulegt að hann sé reiðubúinn að axla enn frekari ábyrgð og taka við hinum efnilega hópi sem skipar 5. flokk kvenna.
Í hópi nýrra andlita í yngri flokka þjálfun félagsins má að lokum nefna Aron Kristjánsson sem mun gegna stöðu aðstoðarþjálfara í 4. flokki karla. Við erum gríðarlega stolt af því að fá notið krafta hans þar sem hann mun örugglega veita Elíasi Má Halldórssyni mikinn stuðning í þjálfun þess öfluga og fjölmenna hóps sem skipar 4. flokk karla.
Frá fyrra tímabili eru þó nokkir öflugir þjálfarar sem halda áfram störfum. Einar Jónsson verður þannig með elstu karlaflokkana, þ.e. 2. og 3, flokk og honum til aðstoðar verður Jens Gunnarsson, sem einnig verður aðalþjálfari í 4. flokki kvenna. Elías Jónasson verður sem fyrr með 5. flokk karla en Elli er með reynslumestu þjálfurum landsins og á engan sinn líkan í óþverrandi áhuga. Ragnheiður Berg verður áfram með 6. flokk kvenna en Ragga hefur þjálfað handbolta og fótbolta um árabil hjá félaginu. Þessir flokkar náðu allir góðum árangri á síðasta vetri.
Æfingatöflur fyrir veturinn hafa verið birtar og má finna hér: