Ótrúleg úrslit á Ásvöllum

Meistaradeild Evrópu 2008/2009Í dag tóku leikmenn Hauka á móti stórliði Veszprém frá Ungverjalandi á Ásvöllum. Fyrirfram var búist við sigri gestanna þar sem lið þeirra er talið eitt af tíu bestu liðum heims og núverandi Evrópumeistarar bikarhafa. En Haukastrákarnir seldu sig dýrt og unnu stórkostlegan sigur 27 – 26.

Fólk trúði ekki sínum eigin augum þegar Haukastrákarnir skoruðu hvert markið á fætur öðru í byrjun fyrri hálfleiks og skópu góða forystu. Haukar náðu 4 marka forskoti, 10 – 6. Fyrir leikhlé juku Haukar forystuna og staðan í hálfleik var 16 – 10 Haukum í vil. 

Í byrjun síðari hálfleik héldu Haukar áfram að auka muninn og komust mest í 9 marka forskot, 22 – 13. Fólk trúði ekki sínum eigin augum enda hreint ótrúlegar tölur. Haukar skoruðu hvert markið á fætur öðru úr hraðarupphlaupum og Birkir Ívar stóð sig frábærlega fyrir aftan feiki sterka vörn. Undir lok leiksins náðu gestirnir að minnka muninn niður í 27 – 26, en það var sú staða sem Veszprém komst næst Haukum fyrir utan stöðun 1-0. Haukamenn náðu að halda eins marks forystunni og sigruðu að lokum 27 – 26.

Markahæstur í liði Hauka var Freyr Brynjarsson með 8 mörk en í síðari hálfleik skoraði hann hvert markið á fætur öðru úr hraðarupphlaupum. Kári Kristján skoraði 5 mörk, þar af 4 úr fyrri hálfleik, Andri Stefan og Sigurbergur skoruðu 4 mörk, Einar Örn, Elías Már og Gunnar Berg skoruðu svo tvö mörk hver.

Hjá Veszprém var Nikola Eklemovic markahæstur með 9 mörk. Marko Vujin skoraði svo 6 mörk, David Korazija 5, Ferenec Ilyés 2 og Gyuala Gál, Marian Cozma, Perez Reinaldo og Zarko Markovic skoruðu eitt mark hver.

Þrátt fyrir sigurinn eru Haukastrákarnir enn í þriðja sæti riðilsins en þrjú lið, Flensburg, Veszprém og Haukar, eru með 4 stig. Markahlutfall Flensburgar er hagstæðast, 23 mörk í plús. Veszprém eru með 7 mörk í plús en Haukamenn með 4 mörk í mínus. Það eru því miklir möguleikar í riðlinum og vonum við svo sannarlega að þessi góða spilamennska í Meistaradeildinni haldi áfram. 

Næsti Evrópuleikur er svo gegn liði Flensburgar þann 8. nóvember. Leikurinn fer fram á Ásvöllum og hefst klukkan 19:30. Að sjálfsögðu vonumst við til að velgengnin í Evrópukeppninni haldi áfram í þeim leik.

Næsti leikur strákanna er á fimmtudaginn þegar þeir taka á móti liði Fram í N1 deildinni. Leikurinn hefst klukkan 19:30 og sjálfsögðu vonumst við til að sjá sem flesta á leiknum.