Íslensk knattspyrna 2008

Bókin Íslensk knattspyrna 2008 eftir Víði Sigurðsson er komin út en bækurnar hafa verið gefnar út samfleytt frá árinu 1981 og þetta er því 28. bókin í röðinni. Hún er stærri en nokkru sinni fyrr, 240 bls., þar af 80 síður í lit, og með rúmlega 360 myndum.

Í bókinni er að finna allt um Íslandsmótið í öllum deildum og yngri flokkum árið 2008 og mjög ítarlega er fjallað um efstu deildir karla og kvenna. Í henni eru miklar upplýsingar um lið og leikmenn, fjallað er um öll helstu mót innanlands, landsleiki í öllum aldursflokkum, Evrópuleiki íslensku liðanna, atvinnumennina erlendis, dómarana, o.s.frv.

Í bókinni í ár eru ítarleg viðtöl við leikmenn sem sköruðu framúr, þau Dóru Maríu Lárusdóttur, Hólmfríði Magnúsdóttur og Guðmund Steinarsson.

Litmyndir af öllum meistaraliðum í öllum flokkum á Íslandsmótinu 2008 eru í bókinni, ásamt bikarmeisturum og landsliðum. Bókin er gefin út í samstarfi við KSÍ og í henni er að finna úrslit allra leikja í KSÍ-mótum 2008.

Bókaútgáfan Tindur gefur bókina út og hún fæst í öllum helstu bókaverslunum landsins og víðar.