Í fremstu röð

Þorvarður Tjörvi Ólafsson, formaður handknattleiksdeildar HaukaHaukafólk ærðist af fögnuði nú á dögunum þegar Einar Örn Jónsson tryggði liði sínu sigur gegn sterku ungversku liði og sæti í 16-liða úrslitum Evrópukeppni félagsliða. Áhorfendapallarnir svignuðu undan trylltum dansi fjölmennrar stuðningssveitar þar sem spenna, stress og gleði fengu útrás með þeim hætti sem einungis íþróttaviðburðir geta framkallað. Leikmenn föðmuðust í gleðivímu og ungir iðkendur sátu dreymnir á svip. Það er á stundum sem þessari sem afl íþróttanna birtist okkur sem sterkast. Engir sundrungarkraftar fá ráðið við þann sameiningarmátt sem íþróttir geta verið. Betri vettvangur fyrir samveru er vandfundinn. Íþróttir brúa bil kynslóða, leggja grunn að ævarandi vináttuböndum og veita skjól gegn hinu hversdaglega annríki. Því er svo mikilvægt á tímum sem þessum þegar sundrungu, sárindum og óvissu vex ásmegin að nýta þann þrótt sem býr í íþróttum.

Meistaraflokkar Hauka hafa náð frábærum árangri á undanförnum árum og yngri iðkendum hefur fjölgað. Velsæld og vegsemd félagsins verður þó aldrei mæld með verðlauna- eða iðkendafjölda einum saman. Haukar eru samfélag og árangur okkar birtist því ekki hvað síst í því hvernig okkur líður í þessu félagi, hvort sem litið er til yngsta hópsins sem hleypur glaðbeittur um þrautabrautina á laugardagsmorgnum eða stuðningsmanna sem skeggræða stöðuna á uppákomum Hauka í horni. Markmið handknattleiksdeildar er að Haukar séu fjölskylduvænt félag í fremstu röð. Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að skapa fjölskylduvæna umgjörð í kringum heimaleiki meistaraflokkanna, m.a. með því koma upp leikaðstöðu með barnagæslu fyrir yngstu kynslóðina og vera með ýmsar uppákomur þar sem börn og unglingar geta tekið virkan þátt og komist í návígi við leikmenn. Við leggjum sömuleiðis áherslu á að leikmenn meistaraflokkanna séu góðar fyrirmyndir yngri iðkenda og heimsækja þeir t.d. yngri flokka æfingar með reglulegu millibili.

Styrkur Hauka hefur ætíð falist í þeim mikla fjölda sem hefur verið reiðubúinn að leggja félaginu lið. Á bak við glæstan árangur á handboltavellinum býr ríkulegt framlag stórrar sveitar sjálfboðaliða. Við fögnum hverjum nýjum liðsmanni. Vilt þú taka þátt í að móta handboltann hjá Haukum?

Þorvarður Tjörvi Ólafsson
Formaður handknattleiksdeildar Hauka

*Pistill í Haukablaðinu Neglan