Inngangur

Íþróttanámskrá þessi lýsir stefnu Knattspyrnufélagsins Hauka, í samræmi við leiðbeiningar ÍSÍ um gæðaverkefnið – fyrirmyndarfélag. Unglingastarf Hauka fer fram undir merkjum aðalstjórnar félagsins í samráði við einstakar deildir.  Íþróttastjóri félagsins er með yfirumsjón með íþróttanámsskrá.

Við gerð íþróttanámskrár Knattspyrnufélagsins Hauka var Íþróttanámskrá knattspyrnudeildar Hauka sem gefin var út 2001 höfð til hliðsjónar. Höfundar íþróttanámskrár knattspyrnudeildar er Janus Guðlaugsson.

Íþróttanámskrá þessi var gefin út 1. september 2008.

Saga Hauka 

Svona til upprifjunar fyrir þá sem það vilja þá kemur hér sögulegt yfirlit Knattspyrnufélagsins Hauka. Nauðsynlegt er að vita uppruna síns félags enda er það bæði fræðandi og skemmtilegt.

Í byrjun árs 1931 komu nokkrir strákar, sem áttu heima við Reykjavíkurveginn í Hafnarfirði, saman og ákváðu að stofna félag um knattspyrnuiðkun sína. Séra Friðrik Friðriksson var þeim innan handar og gaf hann félaginu nafnið Knattspyrnufélagið Haukar. Félagið var formlega stofnað sunnudaginn 12. apríl 1931. Hinir ungu stofnendur Hauka tóku hlutverk sitt alvarlega og óskuðu strax eftir aðild að Íþróttasambandi Íslands.

Fyrsti völlurinn sem Haukar höfðu til umráða var í Hraunholti. Eftir að Hraunholtsvöllurinn var tekinn í notkun í sumarbyrjun 1931 byrjuðu Haukar að æfa knattspyrnu af miklum móð. Þeir fóru inn í Hraunholt alla virka daga og sáu alfarið um æfingarnar sjálfir, þar sem þeir höfðu engan þjálfara. Vorið 1932 hófu Haukar síðan æfingar á Hvaleyrarholti.

Í júlíbyrjun 1932 léku Haukar sínu fyrstu kappleiki í knattspyrnu. Mótherjarnir voru úr hinu knattspyrnufélaginu í bænum, Þjálfa. Skömmu eftir þriggja ára afmælishátíð félagsins vorið 1934, var Halldór Árnason ráðinn sem fyrsti þjálfari knattspyrnuliða Hauka.

Árið 1938 bættust stúlkur í hóp Hauka og voru stofnfélagar kvennaflokks Hauka 41 talsins. Upphaflega æfðu stúlkurnar handknattleik og fimleika. Það var ekki fyrr en 1972 að stúlkur fóru að æfa knattspyrnu í Haukum. Það ár tóku Haukar í fyrsta skipti þátt í íslandsmótinu í kvennaknattspyrnu.

Félagsleg markmið Hauka stuðla að:

 

  • góðri félagsaðstöðu fyrir iðkendur, foreldra og félagsmenn
  • góðri móttöku nýrra félagsmanna
  • eflingu félagsanda
  • aukinni samvinnu milli einstakra flokka, innan deilda og félags
  • samvinnu og samskiptum við önnur íþróttafélög
  • góðri líðan iðkenda og að ánægja og gleði sé í fyrirrúmi
  • því að allir fá tækifæri þ.e. að tekið sé tillti til mismunandi þarfa iðkenda
  • eflingu samstarfs við foreldra og sem mestri þátttöku foreldra í félagsstarfi.
  • góðri framkomu iðkenda á æfingum og íþróttasamkomum.

 

Íþróttaleg markmið Hauka stuðla að:

 

  • ráðningu þjálfara með fagþekkingu á sviði þjálfunar og kennslu
  • íþróttakennaramenntun, íþróttafræðimenntun, sjúkraþjálfaramenntun og/eða kennaramenntun
  • því að þjálfarar ljúki/hafi lokið viðurkenndu námskeiði á vegum sérsambanda eða hafi lokið sambærilegu námi erlendis
  • fjölbreyttri símenntun þjálfara meðan þeir starfa við þjálfun
  • þjálfarar vinni eftir námskrá félagsins
  • því að iðkendur nái góðum tökum á íþróttinni miðað við eigin forsendur.

 

Fjármálaleg markmið Hauka stuðla að:

 

  • nákvæmri fjármagnsáætlanagerð
  • markvissu eftirliti með áætlanagerð
  • endurskoðun sé virk og fari reglulega fram
  • fjármál deilda séu aðalstjórn félagsins og félagsmönnum aðgengileg og ekki sé eytt um efni fram.