Haukar standa fyrir rekstri frístundaheimilis að Ásvöllum skólaárið 2020 – 2021 og er þetta sjöundi veturinn sem Haukar starfrækja frístundaheimilið. Frístundaheimilið er í boði alla virka daga fyrir grunnskólanemendur í 1. – 4. bekk. Börnin eru sótt í skólann og komið á Ásvelli, gangandi ef veður leyfir annars með rútu. Frístundaheimilið opnar kl. 13:00 og lokar kl. 17:00. Börnin fá ávallt síðdegishressingu um kl. 14:10. Á skertum dögum skólans og starfsdögum verður Frístundaheimilið opið frá kl. 9:00-17:00. Það verður auglýst með fyrirvara. Ef börnin koma ekki á Frístundaheimilið t.d. sökum veikinda eða leyfis þarf að láta vita fyrir kl. 13:00 á emilbarja@haukar.is eða í síma 788-9200.

Forstöðumaður Frístundaheimilis er Emil Barja, en hann er menntaður BSC í íþróttafræði frá HR.  Emil hefur starfað hjá Haukum um margra ára skeið í frístundaheimilinu auk  þess að þjálfa og spila körfubolta með Haukum.  Auk Emils  eru 4 starfsmenn í frístundaheimilinu.

Á Frístundaheimili Hauka er farið í ýmsa leiki, glímt við þrautir, farið út, spilað, Lego, litað o.fl. Áherslan er á hreyfingu og hreyfileiki en ávallt er í boði fyrir börnin að taka því rólega eins og að lita, spila o.fl. Þroskaþættir skv. aðalnámskrá grunnskóla eru hafðir að leiðarljósi. Mikilvægt er að börn fái jákvæða upplifun af hreyfingu, kynnist íþróttahúsinu, vinni saman, eflist sem hópur og sem einstaklingar, þekki eigin líkama, leiki sér úti og njóti þess að vera til! Frístundaheimilið er unnið í samstarfi við börnin og foreldra/forráðamenn. Ekki hika við að koma með hugmyndir, ábendingar og endurgjöf! Aðstaða Frístundaheimilis Hauka er samkomusalurinn, stóri íþróttasalurinn og auðvitað náttúran í kring. Börnin þurfa alltaf að vera klædd eftir veðri (eins og í skólanum). Nauðsynlegt er því að vera með þurr aukaföt og gott að minna á að merkja fötin svo það sé auðveldara að koma þeim áleiðis ef þau gleymast. Börnin mega vera klædd eins og þau vilja á Frístundaheimilinu (þ.e.a.s. í íþróttafötum eða eins og þau eru klædd í skólanum). Seinustu ár höfum við farið í ferðir í Húsdýra og fjölskyldugarðinn, heimsótt Bjarkirnar og reynt að brjóta upp hefðbundna dagskrá með skemmtilegum uppákomum.

Við fylgjum og aðstoðum öll börn sem fara frá okkur á æfingar hér í húsinu og í nágrenninu t.d. Ásvallalaug og fylgjum börnum í frístundabílinn.

Við bjóðum upp á pláss fyrir 55 börn. Upplýsingar sem þarf að gefa upp við skráningu eru: fullt nafn barns, hvaða vikudaga er sótt um (mán-fös) lágmark er að vera skráð/ur í 3 daga, æfingar barnsins (ef það á við), í hvaða skóla barnið er, hverjir mega sækja barnið, aðrar nauðsynlegar upplýsingar eins og lyfjagjöf, ofnæmi, sjúkdómar o.s.frv. Einnig nafn, símanúmer og netfang foreldris/forráðamanns. Sérstakur stuðningur fyrir börn með sérþarfir er því miður ekki í boði eins og staðan er í dag.

Emil tekur við skráningum og fyrirspurnum á netfangið emilbarja@haukar.is og í síma 788-9200. Upplýsingar um greiðslufyrirkomulag gefur Ásdís í síma 525-8707.