Uppskeruhátíð yngri flokka handknattleiksdeildar Hauka

Uppskeruhátíð yngri flokka handknattleiksdeildar Hauka var haldinn á Ásvöllum föstudaginn 19 maí. Voru það bæði stelpur og strákar úr 8. – 3. flokki sem komu saman. Farið var yfir veturinn sem var mjög árangursríkur hjá yngri flokkum, bæði hvað varðar iðkendafjölda og keppni. Til Íslandsmeistara unnu 5. fl. kvenna, 6. fl. karla og 3. fl. karla. Glæsilegur árangur það! Þá voru veittar viðurkenningar til þeirra liða sem urðu Íslandsmeistarar og jafnframt fengu allir iðkendur viðurkenningarskjöl fyrir að ljúka tímabilinu í sínum flokki. Þá fóru þjálfarar tímabilið hjá sínum flokki og allir iðkendur komu upp og tóku við sínum viðurkenningum. Að lokum var slegið upp í grillveislu á Ásvöllum með pompi og prakt.

Að þessu sinni voru ekki veitt einstaklingsverðlaun og eru nokkrar ástæður fyrir því. Handbolti er hópíþrótt og skipta allir iðkendur félagsins jafnmiklu máli. Mikilvægt er að iðkendur skilji mikilvægi þess að vera hluti af heild og að liðsheild skipti meira máli en einstaklingarnir. Vissulega þarf að sinna hverjum einstaklingi og framþróun hans en hrós og sú upplifun að leggja sitt af mörkum fyrir lið sitt er lykillinn að hvatningu. Þá er það þjálfara að hvetja jafnframt og efla hvern einstakling.

Á hverju ári eru margir iðkendur sem eiga skilið viðurkenningu og er það snúið verk fyrir þjálfara að velja nokkra einstaklinga úr stórum hópi til þess að verðlauna þannig að sanngirni sé mætt. Áhersla á jákvæða upplifun og liðsheild munu því vera leiðarljós uppskeruhátíðar yngri flokka handknattleiksdeildar Hauka í framtíðinni. Hafa því einstaklingsverðlaun verið lögð til hliðar og er þess í stað viðurkenning veitt til allra þeirra sem klára hvert tímabil eða ár með sínum flokki. Það er mat félagsins að það sé til þess fallið að efla starfið enn frekar, halda iðkendum lengur í íþróttinni og gera starfið betra til frambúðar. Áfram Haukar!