Unglingaflokkur kvenna varð bikarmeistari um helgina

HaukarBikarmeistariUnglingaflUnglingaflokkur kvenna varð í gær bikarmeistari KKÍ eftir glæsilegan sigur á Keflavík í framlengdum úrslitaleik í Höllinni.

Haukastúlkur komu ákveðnar til leik og voru mjög grimmar á meðan að lið Keflavíkur var ekki alveg tilbúið og var sjálfsagt enn að hugsa um glæsilegan bikarmeistaratitil mfl. kvenna deginum áður. Haukaliðið nýtti sér það ágætlega og leiddi allan fyrri hálfleikinn þó svo að hafa aldrei náð að hrista lið Keflavíkur af sér og var munurinn oftast á milli 2-7 stig og því mátti lítið útaf bera svo Haukarnir myndu missa frumkvæðið.
Í seinni hálfleik hélst baráttan áfram og munurinn ávallt lítill, en lið Keflavíkur komst í forystu í byrjun fjórða leikhluta og fór þá aðeins um stuðningsfólk Hauka í stúkunni en stelpurnar sýndu mikinn baráttuvilja og náðu forystunni aftur. Síðasta mínúta leiksins var æsispennandi og er nokkrar sek. voru eftir og Haukar yfir með þrem stigum þá náðu Keflvíkingar fríu 3ja stiga skoti, þar sem vörn Hauka gleymdi sér aðeins, og jöfnuðu þær metin. Haukar tóku tíma og með góðri lokasókn, er um 3 sek. voru eftir, var brotið á Dýrfinnu og hefði hún getað tryggt sigurinn en hún brenndi af báðum vítunum og framlenging varð raunin.
Margir héldu að þetta hefði mikil áhrif á Haukaliðið og að Keflvíkingar myndu nú nýta sér það að hafa náð framlengingu en Haukaliðið kom gríðarlega sterkt inní framlenginguna og tryggði sér glæsilegan 10 stiga sigur.

ThoraLykillUnglingaflHaukaliðið spilaði frábærlega í þessum leik og var allt liðið ákveðið og þær sem spiluðu stóðu sig gríðarlega vel. Þóra Jónsdóttir var valin besti leikmaður leiksins en hún stjórnaði leik Haukaliðsins af mikillri festu og ákveðni, hún skilaði stórkostlegri þrennu og var nálægt því að ná fernu, með 17 stig, 11 fráköst, 10 stolna bolta og 8 stoðsendingar. Frábærar tölur hjá þessum efnilega leikstjórnenda og verður spennandi að fylgjast með henni í framtíðinni.

Bæði lið eiga hrós skilið fyrir skemmtilegan leik og eru þetta tvö lang bestu lið landslins. Við þökkum Keflavík fyrir góðan leik og jafnframt til hamingju með „þann stóra“ á laugardeginum en bæði lið eru meginuppistaða mfl. liða félagsins.

Til Hamingju stelpur með titilinn.