Ungir Haukastrákar skrifa undir samning við Hauka

Jason og Aron Kristjánsson handsala samninginn. Mynd: Haukar

Haukar hafa skrifað undir samninga við Jason Guðnason og Darra Aronsson en báðir eru þeir uppaldir hjá félaginu. Þeir eru nú þegar orðnir partur af meistaraflokki félagsins eftir að hafa fengið smjörþefinn af því seinustu tímabil. Einnig er búist við því að þeir fái enn stærra hlutverk á komandi tímabili þar sem uppistaðan í meistaraflokki karla verða uppaldir Haukastrákar.

Jason Guðnason kom við sögu í nokkrum leikjum á síðasta tímabili ásamt því að hafa spilað með U-liði félagsins í Grill 66 deild karla þar sem hann var valinn mikilvægasti leikmaður liðsins. Jason er 20 ára hávaxinn vinstri skytta og línumaður sem spilar flotta vörn og á hann að mynda öflugt línumannatríó með Heimi Óla og Jóni Þorbirni.

Þorgeir Haraldsson formaður og Darri handsala samninginn. Mynd: Haukar

Darri Aronsson kemur aftur til Hauka eftir ár í Danmörku þar sem hann lék með unglingaliði Aalborg Håndbold ásamt því var hann einnig í hóp í nokkrum leikjum aðalliðs Aalborg Håndbold í dönsku úrvalsdeildinni. Darri sem er uppalinn Haukastrákur var hluti af meistaraflokki Hauka tímabilið 16-17 áður en hann fór út en hann spilar sem vinstri skytta auk þess sem að hann þykir góður varnarmaður. Darri er þessa dagana á fullu með U-20 ára landsliði Íslands sem undirbýr sig fyrir lokakeppni EM seinna í júlí.

Haukar vænta mikils af þessum flottu strákum á komandi tímabili og í framtíðinni og hlakka til að sjá þá á parketinu eftir sumarið.