Stórleikur í Domonos deild kvenna á miðvikudag, Haukar – Valur.

Tvö efstu lið Dominos deildar munu mætast miðvikudaginn 18. október kl. 19:15 í Schenkerhöllinni, en bæði lið hafa spilað þrjá leiki og unnið þá alla.

Haukaliðið hefur verið að spila mjög vel og unnið sína þrjá leiki nokkuð örugglega, þrátt fyrir að gefa kannski aðeins of mikið eftir í lokin í síðasta leik á móti Snæfell á útivelli.
Valsliðið styrktist gríðarlega fyrir þetta tímabil og fékk til að mynda landsliðs miðherjann Ragnheiði Benónísdóttur til baka og reynsluboltann Kristrúnu Sigurjónsdóttir einnig, en báðar komu frá Skallagrími aftur í Val. Valsliðið er vel skipað og því má búast við hörku leik tveggja góðra liða.

Það verður spennandi að sjá hvernig Haukaliðið mun standa sig á móti lið sem flestir spá góðu gengi. Haukaliðið er að mestu skipað ungum og efnilegum leikmönnum en lykilmanneskjur liðsins eru þó reyndar og hafa þær, Helena og Cherise verið að spila mjög vel. Helena hefur komið gríðarlega sterk til baka og er nálægt þrennunni að meðaltali í þessum þrem sigurleikjum, er með 19.3 stig, 13,7 fráköst og 6,7 stoðsendingar að meðaltali og frábæra skotnýtingu.

Eins og áður segir hefst leikurinn kl. 19:15 og hvetjum við Haukafólk til að mæta og hvetja stelpurnar í þessum stórleik.