Haukar.is
Félagið mitt

 
  • Stækka leturstærð
  • Sjálfgefin leturstærð
  • Minnka leturstærð

Ársskýrsla Knattspyrnufélagsins Hauka 2012

Haukar

 I.   AÐALFUNDUR 2012 – FUNDARGERР

Aðalfundur Knattspyrnufélagsins Hauka árið 2012.  Haldinn að Ásvöllum, 16. febrúar 2012, kl. 18:00. 

1.  Formaður, Ágúst Sindri Karlsson,  býður menn velkomna,  setur fund og gerir tillögu  um Steinþór Einarsson sem fundarstjóra og Bjarna Hafstein Geirsson sem fundarritara. Tillagan samþykkt.

2.  Fundarstjóri fór yfir lögmæti fundarins.  

3:  Formaður flytur skýrslu stjórnar fyrir starfsárið svohljóðandi:

_________________________________________ 

 

Ársskýrsla Knattspyrnufélagsins Hauka 2012

 

A.              Inngangur

 

Knattspyrnufélagið Haukar hélt upp á 80 ára afmæli á síðasta starfsári.  

 Í sögulegu ljósi þá hefur árangur á íþróttavellinum oft verið betri og í fyrsta skipti í formannstíð undirritaðs vannst enginn Íslands- eða bikjarmeistaratitill í boltaíþrótt á starfsárinu.  Karatemenn héldu þó uppi merki félagsins og þar unnust titlar. 

Það sem vantaði á íþróttavellinum var hins vegar margfalt bætt upp í félagsstarfinu.  80 ára afmælisfagnaður félagsins sem haldinn var 12. apríl var frábær skemmtun sem lengi verður í minnum höfð.  Sögusýning félagsins tókst mjög vel auk ýmissa viðburða sem voru á vegum afmælisnefndar.  Ég vil nota tækifærið og þakka afmælisnefndinni fyrir frábært störf á afmælisárinu, en nefndina skipuðu Elín Óladóttir, Inga Valgerður Kristinsdóttir, Anton Magnússon og Steinþór Einarsson.

Annars markaðist starf félagsins á síðasta ári af nokkrum mjög erfiðum ákvörðunum í rekstri.  Vegna 15% lækkunar á rekstrarstyrk Hafnarfjarðarbæjar þurftum við að fækka stöðugildum á íþróttasvæðinu úr 11 í 7.   Það er alltaf slæmt að sjá eftir góðu fólki.  Starfsmenn á vöktum hafa tekið á sig verulega starfsskerðingu og hefur starfshlutfall þeirra farið úr 100% í 70% með tilheyrandi lækkun launa.  Þá þurftum við að hækka iðkendagjöld í barna og unglingastarfi verulega til að standa undir því metnaðarfulla  starfi.

Þrátt fyrir að þessar ákvarðanir hafi verið ákaflega erfiðar og  reynt mjög á innviði félagsins þá stendur félagið sterkara eftir enda er það von okkar að rekstur þess fari nú að komast á réttan kjöl.  

Ég á engin orð til að lýsa aðdáun og þakklæti til starfsfólks Hauka sem hefur staðið við bakið á stjórnendum í þessum þrengingum.   Þau hafa tekið á sig aukna vinnu og launaskerðingu og án þeirra hefði þetta ekki verið hægt.  Eftir því verðum við að muna þegar aftur birtir til í rekstri félagsins.

 

B.              Aðalstjórn Hauka

Aðalstjórn Hauka á starfsárinu 2011-2012 var þannig skipuð:

Ágúst Sindri Karlsson formaður, Heimir Heimisson varaformaður, Viðar Jónsson gjaldkeri,

frá handboltadeild: Valdimar Óskarsson, Elva Guðmundsdóttir,

frá knattspyrnudeild: Jón Björn Skúlason, Gréta Hrund Grétarsdóttir,

frá körfuknattleiksdeild: Samúel Jónsson, Sigurður Freyr Árnason,

frá karatedeild, almenningsdeild o.fl.: Gísli Þór Magnússon, Sigríður Kristjánsdóttir og

frá félagsráði: Bjarni Hafsteinn Geirsson.

Haldnir voru 10 stjórnarfundir á árinu.

 

C.               Starfsnefndir

 

Afmælisnefnd: Elín Óladóttir, Steinþór Einarsson, Anton Magnússon og Inga Valgerður Kristinsdóttir.

 

Minningar- og styrktarsjóður: Bjarni Hafsteinn Geirsson, Katrín Jónsdóttir og Björg Guðmundsdóttir.

 

Fulltrúar í stjórn ÍBH: Heimir Heimisson og Guðbjörg Norðfjörð.

 

Orðunefnd: Ágúst Sindri Karlsson, Elva Guðmundsdóttir, Sverrir Hjörleifsson og Hafsteinn Ellertsson.

 

Ritnefnd sögu Hauka:  Bjarni H. Geirsson, Lúðvík Geirsson, Hermann Þórðarson og Sigríður Kristjánsdóttir.

 

D.              Íþróttamannvirki – framkvæmdir

Framkvæmdir við íþróttamannvirki félagsins voru með minnsta móti á árinu.

Helsta breyting á mannvirkjum á svæðinu var uppbygging á bensínstöð N1.  Stöðin var opnuð með veglegu kynningartilboði í apríl 2012.  Biðröð myndaðist við stöðina í upphafi og síðan hefur salan verið stöðug og eykst  jafnt og þétt, sem er mjög góður árangur í því efnahagsástandi sem nú ríkir.

Að öðru leyti ber helst að nefna er að átak hefur verið gert í snyrtingu á útisvæði félagsins.  Þar hefur vallarstjóri félagsins, Bárður Jón Grímsson, lyft grettistaki og eru honum þökkuð sérstaklega frábær störf.

Ljóst er að félagið verður enn um sinn að hafa biðlund varðandi stærri framkvæmdir á svæðinu.   Það er hins vegar mjög brýnt á árinu að sinna viðhaldi á keppnisvelli félagsins.

  

E.               Leikjaskóli barnanna

Starfsemi skólans var með hefðbundnum hætti. Þátttakan góð, um 110,  þrátt fyrir að Hafnarfjarðarbær hafi hætt stuðningi við yngstu félagana. Sem fyrr leiðir Albert Magnússon starfið styrkri hendi og lögð er sem fyrr áhersla á fagmennsku og festu þar sem ungur nemur en gamall temur.

 

F.               Íþróttaskóli Hauka

Síðasta sumar var fimmta starfsár Íþróttaskólans. Frá upphafa hefur félagið lagt áherslu á fagmennsku og fjölbreytni í starfsemi skólans. Þrátt fyrir erfiðleika í íslensku samfélagi um þessar mundir var þátttaka góð -  að jafnaði 110 iðkendur á viku í þær 11 vikur er skólinn starfaði. Þátttökugjöldum hefur verið stillt í hóf – óbreytt verð  frá upphafi.  Skólastarfinu hefur verið skipt í þrjá hluta:

1.              Íþróttaskóli fyrir börn á aldrinum 2 – 12 ára

2.              Umsjón og umhirða á íþróttasvæðum og mannvirkjum félagsins

3.              Skóli fyrir verðandi leiðbeinendur og íþróttamenn framtíðar

Íþróttaskólinn bauð upp á eftirtalin námskeið:

A.             Fótboltaskóla

B.             Körfuboltaskóla

C.              Handboltaskóla

D.             Íþróttaleikskóla

E.              Leikjaskóla  Hauka

F.              Skólahreystinámskeið

Þá var í boði barnagæsla frá kl. 8 – 9.  Matur var í boði í hádeginu og voru framreiddir 1813  matarskammtar. Um 90 starfsmenn störfuðu hjá skólanum og dreifðust þeir nokkuð jafn yfir sumarið. Starfsemi skólans byggir á náinni samvinnu við Vinnuskóla Hafnarfjarðar sem greiðir hluta launa starfsmanna.  Um leið og félagið þakkar samstarfið  er það  ósk félagsins að þetta starf megi aukast og dafna í framtíðinni og Íþróttaskóli Hauka eflast og blómstra.

 

G.             Handknattleiksdeild

Handknattleiksárið 2011 var ágætis ár fyrir handknattleiksdeild þó ekki hafi verið mikið um stórsigra á árinu.  Hvorki karla né kvenna lið félagsins náði þeim árangri að leika í úrslitakeppni að vori.  Öflugt uppbyggingarstarf félagsins sýndi sig enda urðu elstu unglingaflokkar þ.e. 2 flokkur karla og unglingaflokkur kvenna íslandsmeistarar.  

 

Í byrjun Mars mánaðar voru gerðar breytingar á þjálfarateymi meistaraflokks karla, þá tóku þeir Gunnar Berg Viktorsson og Birkir Ívar Guðmundsson við liðinu tímabundið eða til loka keppnistímabils, á sama tíma lét Halldór Ingólfsson af störfum.   Í Maí mánuði náðist samkomulag við Aron Kristjánsson um að taka við þjálfun liðsins.  Aron er að öllum líkindum sigursælasti þjálfari sem félagið hefur haft enda var ekki lengi beðið eftir titli því liðið undir hans stjórn urðu deildarbikarmeistarar í Desember sem veitti liðinu þátttökuheimild í EHF keppninni 2012/2013.

 

Um mitt ár komu og fóru leikmenn frá félaginu. 

Frá meistaraflokk karla fóru þeir: Björgvin Hólmgeirsson, Gísli Jón Þórisson, Guðmundur Árni Ólafsson og Einar Örn Jónsson.  

Þeir sem gengu í raðir meistaraflokks karla voru: Gylfi Gylfason, Matthías Ingimarsson og Nemanja Malovic,

Frá meistaraflokki kvenna fóru þær: Sandra Sif Sigurjónsdóttir og Þórunn Friðriksdóttir.

Þær sem gengu í raðir félagsins voru: Marija Getroid , Silja Ísberg, Rakel Kristín Jónsdóttir, Ásta Agnarsdóttir og Sólveig Ásmundardóttir.

 

Stjórn félagsins hefur lagt mikla áherslu á að halda áfram að byggja upp félagsanda ungra sem eldri Haukamanna og beita sér fyrir áframhaldandi samfélagsþjónustu í þágu bæjarbúa sem og annarra handknattleiksunnenda.

 

Við í handknattleiksdeildinni sjáum fram á bjarta framtíð, því mikið er af ungum góðum handknattleiksleikmönnum sem eru að stíga upp og eru unglingaflokkar okkar meðal þeirra allra bestu á landinu.

 

Kosningu stjórnar var frestað fram að framhaldsaðalfundi 15. Febrúar 2012.  Þá voru eftirtaldir kosnir til stjórnarstarfa.

 

Formaður: Valdimar Óskarsson,

Aðrir stjórnarmenn sem staðfestu stjórnarsetu:

Þorgeir Haraldsson, Þorkell Magnússon, Þórdís Geirsdóttir, Ásdís Geirsdóttir, Guðborg Halldórsdóttir, Guðjón Sigurðsson, Sigurjón Bjarnason, Þórður Rafn Stefánsson, Björg Guðmundsdóttir, Albert Sigurðsson, Gissur Guðmundsson, Herbert Ingi Sigfússon, Elva Guðmundsdóttir og Tryggvi Árnason.

 

Fulltrúar hkd. í Aðalstjórn félagsins voru kjörin: Elva Guðmundsdóttir og Þorgeir Haraldsson.

Varamaður: Valdimar Óskarsson

Fulltrúar hkd í Reka verða: Valdimar Óskarsson og Sigurjón Bjarnason

 

H.              Knattspyrnudeild

 

Árið 2011 var frekar hefðbundið. Meistaraflokkar félagsins léku báðir í 1 deild og áttu góðu gengi að fagna. Oft geta keppnistímabil orðið erfið eftir fall en bæði liðin gerðu harða atlögu að því að vinna sér keppnisrétt að nýju í efstu deild. Stelpurnar fóru í úrslitakeppni 1 deildar en féllu úr keppni fyrir nágrönnum okkar en strákarnir eltu lengi vel annað sætið í deildinni en 3ja sætið varð hlutskipti félagsins. Í lok keppnistímabilsins urðu breytingar á þjálfaramálum beggja flokka. Félagið þakkar Magnúsi Gylfasyni og Heimi Porcha fyrir frábær störf og á sama tíma bjóðum við Ólaf Jóhannesson og Jón Stefán Jónsson velkomna til starfa.

 

Enn var haldið áfram við að bæta starf yngri flokka félagsins. Félagið heldur áfram mentaðarfullu starfi og hefur það að markmiði að ráða til sín öfluga og vel menntaða þjálfara. Þetta uppbyggingarstarf hefur þegar skilað góðum árangri. Á árinu 2011 urðu breytingar þegar nýjir þjálfarar tóku við 3 & 4 flokki kvenna og þjálfari þeirra færðist til að efla 2 flokka karla. Knattspyrnudeild félagsins er stolt af því þjálfarateymi sem nú starfar hjá félaginu og allar stöður vel mannaðar sem og Afreksskóli og afrekssvið félagsins. Markmið yngri flokka er ekki alltaf að vinna titla heldur einnig að sinna öflugu uppeldisstarfi og lokamarkmiðið er að búa til afreksmenn í knattspyrnu sem munu leiða meistaraflokka félagsins til frekari afreka í framtíðinni.

 

Árangur yngri flokka félagsins var mjög góður. Flest lið spila nú í A-riðlum Íslandsmóta og er það að sjálsögðu markmiðið að vera meðal þeirra bestu. Enn fjölgar Haukamönnum í yngri landsliðum félagsins og í lok árs var 20% æfinghóps U19 landslið karla mannað Haukadrengjum. Þetta sýnir að uppbyggingarstarf í yngri flokkum félasins er á réttri leið og  er stjórn knattspyrnudeildar þess fullviss að framtíðin sé björt og við viljum þakka öllum þeim sem komið hafa að þessu starfi.

 

Lokahóf knattspyrnudeildarinnar var haldið með breyttu sniði og féll það í góðan jarðveg. Þar voru þau Daði Lárusson og Ellen Þóra Blöndal valdir bestu leikmenn keppnistímabilsins, og Hilmar Trausti Arnarsson var síðan valinn knattspyrnumaður Hauka 2011.

 

Að lokum viljum við þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem unnu óeigingjarnt starf allt síðastliðið ár og nú er að sameinast um að búa til eftirminnilegar stundir á nýju ári og stefna í efstu deild á ný.

 

Á aðalfundi deildarinnar 8. febrúar sl. voru eftirtalin kjörn í stjórn deildarinnar.

Jón Björn Skúlason, formaður, Gréta Hrund Grétarsdóttir, Agnar Steinn Gunnarsson, Unnur Magnadóttir, Valborg Óskarsdóttir, Páll Guðmundsson, Jóhann Unnar Sigurðsson, Loftur Gíslason, Halldór Garðarsson, Páll Guðmundsson, Hugrún Árnadóttir, Jónas Sigurgeirsson, Elías Atlason, Dröfn Sveinsdóttir, Jón Erlendsson, Sigþór Marteinsson og Þorsteinn Arnar Hallsson

 

I.                Körfuknattleiksdeild

 

Liðið starfsár stjórnar körfuknattleiksdeildarinnar hefur verið annasamt hvert sem litið er, sem ég a.m.k. Sá ekki fyrir á síðasta aðalfundi Körfuknattleiksdeildarinnar. Ýmis óvænt verkefni hafa komið upp sem kallað hafa á mikla vinnu stjórnarmanna og þeirra sem starfa í ráðum deildarinnar.

 

Eftir nokkur vonbrigði með gengi m.fl. Kvenna á síðast liðnu keppnistímabili ákvað Henning Henningsson þjálfari liðsins að segja starfi sínu lausu síðast liðið sumar og taka sér frí frá m.fl. Þjálfun m.fl. En taka að sér þjálfun yngri flokka hjá Haukum. Henning er þakkað fyrir velunnin störf fyrir Hauka og því jafnframt fagnað að hann skuli gefa sér tíma til að þjálfun yngri flokka deildarinnar. Leitin að nýjum þjálfara fyrir m.fl. Kvenna var nokkuð tímafrek því meistaraflokksráð kvenna með aðstoð frá Ívari Ásgríms og Henning vildi vanda valið. Nokkrir þjálfarar voru til skoðunar en eftir að nafn Bjarna Magnússonar þjálfara m.fl. Kvenna kom upp gengu hlutirnir hratt fyrir sig. Allt frá fyrstu æfingum Bjarna með hefur ríkt mikil ánægja með störf Bjarna sem fer enn vaxandi enda er liðið að ná góðum árangri, búið að landa Lengjubikarmeistaratitli er í einu af fjórum efstu sætum í Iceland Express deildinni og komið í fjögurra liða úrslit bikakeppninnar. Þá eiga Haukar ná tvo leikmenn í A landsliðshópi Íslands auk uppaldra leikmanna Hauka sem spila erlendis eða með öðrum liðum.

 

Meistaraflokkur karla endaði síðasta tímabil mjög vel komst í 8 liða úrslit Iceland Express deildarinnar og í 4 liða úrslit bikarkeppninnar þar sem lið Hauka átti í fullu tré við tvö af sterkustu liðum landsins Snæfell og Grindavík. Mikill hugur var í okkar ungu og efnilegu strákum að gera enn betur á því tímabili sem nú stendur yfir og æfðu þeir vel síðasta sumar til að undirbúa sig fyrir veturinn þannig að enn betri árangur gæti náðst. Keppnistímabilið sem nú er langt komið hefur hins vegar reynst okkur Haukamönnum mikil vonbrigði þar sem fátt hefur gengið upp af því sem væntingar stóðu til í upphafi keppnistímabilsins. Fyrstu tveir erlendu leikmenn liðsins reyndust ekki vera jafn góðir leikmenn og vonast hafði verið til og náði lið Hauka ekki að sigra leiki í upphafi keppnistímabilsins og þá setti það liðið enn út af sporinu að þjálfari liðsins ákvað að segja upp störfum í lok október öllum stjórnarmönnum að óvörum. Þessi tvö atriði urðu til þess að lið Hauka náði sér ekki á strik fyrir áramót og hefur ekki enn náð sér á strik þó allir þeir sem starfa í kringum liðið séu vissir um að getan er til staðar. Vandræði í kringum erlenda leikmenn og ráðning á nýjum þjálfara Pétri Rúðrik Guðmundssyni hefur kostað gríðarlega mikla vinnu okkar stjórnarmanna.

 

Meistaraflokkslið Hauka þarf núna nánast kraftaverk til að ná að halda sér uppi í deild þeirra bestu m.a. Vegna óhagstæðra úrslita í leikjum annarra liða. Liðið hefur sýnt í flest öllum leikjum sýnum að það á fullt erindi í deild með þeim bestu þó það hafi ekki unnið nema 2 leiki á tímabilinu til þessa. Umsögn á karfan.is eftir síðasta leik Hauka á móti einu af sterkustu liðum deildarinnar Stjörnunni er dæmigerð fyrir leiki vetrarins! Stjarnan marði Hauka sem voru yfir allan leikinn þar til í lok fjórða leikhluta.

 

Barna- og unglingastarf deildarinnar hefur gengið að mörgu leyti vel liðið starfsár!  Iðkenndafjöldi í körfunni hefur t.d. haldist óbreyttur á þessu tímabili þrátt fyrir þá miklu hækkun á æfingagjöldum sem Haukar neyddust til að gera hjá iðkenndum vegna niðurskurðar Hafnarfjarðarbæjar  á fé til reksturs íþróttahússins sem og vegna taps á rekstri barna- og unglingastarfsins síðast liðin vetur vegna niðurskurðarins. Barna- og unglingstarfið hjá Haukum hefur nú fjárhagslega náð að rétta sig að miklu leyti af og hefur getað greitt þjálfurum laun á réttum tíma undanfarið.

 

Gengi yngri flokkanna var að mörgu leyti gott s.l. vor þó einungis einn Íslandsmeistaratitil og einn bikarmeistaratitill hefði unnist. Nú eru flest lið okkar í A riðlum og munu berjast um Íslandsmeistara-og bikarmeistaratitla nú í vor og eru góðar líkur á að fleiri titlar vinnist í vor en síðast liðið vor. Ljóst er að Haukar eru að fá upp úr yngri flokkum fjölda efnilegra leikmann af báðum kynjum. Haukar áttu alls 11 leikmenn í yngri landsliðshópum nú  í haust og voru þar jafnir Njarðvík í 2-3 sæti í fjölda leikmanna í yngri landsliðum. Að meðtöldum leikmönnum sem gengnir eru upp úr yngri landsliðum þá áttu Haukar alls 14 leikmenn sem tóku þátt í landsliðsverkefnum á síðasta ári. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá 4 leikmenn frá Haukum í 16 ára landsliðshóp stráka þó Ívar þjálfari hefði viljað sjá a.m.k. tvo leikmenn til viðbótar í hópnum. Ljóst er að að Haukar eru að fá í þeim hóp sem varð Íslandsmeistari í 9.flokki í vor mjög efnilega leikmenn sem halda þarf vel utan um á komandi árum. Þá eru einnig fleiri enn yngri leikmenn í 7 til 9 flokki stráka sem eru mjög efnilegir. Að auki vöktu  nokkrir leikmenn sem enn eru í minnibolta athygli á Actavís mótinu.

 

Hjá stelpunum eru einnig að koma upp sterkir árgangar og áttu Haukar t.d. 3 stelpur í landsliðshóp 15 ára og yngri og þá eru sjöundi og minnibolta flokkar sterkir. Áhyggjuefni er fækkun á þátttöku yngri stúlkna í körfu sem er sama þróunin eins og virðist vera í öðrum boltagreinum á stór Hafnarfjarðarsvæðinu . Eitt af meginverkefnum barna- og unglingaráðs á komandi starfsári er að reyna að snúa þessari óheilla þróun við!

 

Þegar stjórnarmenn hófu vinnu að nýju eftir sumarfrí fengu þeir fréttir af bágri fjárhagsstöðu Hauka jafnt Rekstrarfélagsins, Aðalstjórnar sem og barna- og unglingastarfs Hauka. Þá bættist við að framkvæmdastjóri félagsins hafði óskað eftir lausn frá störfum. Fréttir af þessari bágu stöðu sérstaklega Rekstrarfélagsins komu stjórn nokkuð í opna skjöldu því s.l. sumar hafði körfuknattleiksdeildin handsalað enn betri samning við aðalstyrktaraðila deildarinnar Actavís sem og staðið að gerð nýs samnings við Alcan ásamt núverandi framkvæmdastjóra Hauka sem samanlagt standa einir og sér standa undir um 80% af öllum kostnaði við rekstur t.d. M.fl. Karla í körfu.

 

Mikil vinna fór hjá stjórnarmönnum við að ná inn frekari tekjum sem og að vinna að ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra. Haukar voru mjög heppnir að fá Magnús Gunnarsson sem framkvæmdastjóra félagsins sem lyft hefur grettistaki við að snúa fjármálum Hauka til betri vegar þó klárlega sé töluvert í land enn. Hef ég ekki tölu á öllum þeim nýju styrktarsamningum sem gerðir hafa verið í vetur þó stærstur af þeim sé við DB Shenker. Stjórn deildarinnar vill þakka Magnúsi fyrir sérlega ánægjulegt samstarf í vetur og væntir mikils af hans störfum fyrir Hauka.

 

Stjórn og stuðningsfólk körfunnar hefur verið í fararbroddi í stærstu fjáröflunum þar sem Haukar hafa leitað eftir vinnu Haukafólks en þar á ég við okkar vel heppnaða Actavísmót, flugeldasöluna sem og akstur á bílaleigubílum. Tekjur Hauka af þessum fjáröflunum eru enn meiri nú en síðasta ári og skipta gríðarlega miklu í starfi Hauka. Stjórnin vill þakka stuðningsmönnum körfunnar fyrir frábært sjálfboðaliðastarf s.l. starfsár.

 

Eins og fram hefur komið hér að framan þá hefur liðið starfsár verið bæði mjög annasamt fyrir stjórnina og einnig ár vonbrigða að hluta! Þá telur stjórnin að körfuknattleikur hér á landi sé á rangri leið hvað varðar laun og meintar kostnaðargreiðslur til  dómara og nánast óheftan fjölda erlendra leikmanna sem draga verulega úr möguleikum íslenskra leikmanna til að vaxa og dafna. Allt of mikill tími stjórnarmanna fer í vinnu vegna erlendra leikmanna.

 

Helstu verkefni nýrrar stjórnar eru að vinna að því að karlaliðið komist aftur upp í efstu deild ef það fellur um deild eins og því miður flest bendir til. Þá þarf að vinna að því að skapa enn betri umgjörð fyrir okkar efnilegustu iðkenndur í yngri flokkunum. Þá þarf stjórnin í samstarfi við formann handknattleiksdeildarinnar sækja hart að ÍBH við að sjá til þess að ekki falli niður jafn mikið af æfingum að Ásvöllum og raunin er núna. Komið hefur upp hugmynd um að leikir í yngri flokkum í hand- og körfubolta sem ekki eru leiknir í fjölliðamótum verði leiknir á Strandgötu þannig að ekki þurfi að fella niður æfingar á Ásvöllum.

 

Ársreikningar körfuknattleikdeildarinnar eru ekki gerðir frekar en fyrri ár þar sem deildin er rekinn inni í Rekstrarfélagi Hauka. Samkvæmt rekstraráætlun deildarinnar fyrir síðasta ár er kostnaður við rekstur deildarinnar það er m.fl. Karla og kvenna um 19 m.kr. Sem er hækkun um 1,2 m.kr frá fyrra ári eða u.þ.b. helmingur kostnaðar við einn erlendan leikmann.  Ljóst er að kostnaður við rekstur m.fl. verður hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir m.a. Vegna þess að skipt hefur verið um erlenda leikmenn og einnig að þeim hefur verið fjölgað.

 

Tekjuáætlun deildarinnar sýndi að tap yrði af rekstri deildarinnar um 1,7 m.kr að óbreyttu s.l. haust. Með  vinnu stjórnarmanna og framkvæmdastjóra Hauka hefur tekist að brúa þetta bil og gott betur og er ég nokkuð viss um að Körfuknattleiksdeildin útvegar þær tekjur sem þarf til að standa undir kostnaði við hana. Bæði tekjur og gjöld hafa á síðust 3 árum u.þ.b. Tvöfaldast. Helstu stuðningsfyrirtæki körfunnar er Actavís, Alcan, N1, KFC/Góa, Fura, Vínhúsið og Bílaleiga Akureyrar. Þá er rétt að geta þess að stuðningsaðilar og fyrirtæki sjá um kostnað við allt flug erlendra leikmann sem orðnar eru háar upphæðir á hverju ári!

 

Í stjórn deildarinnar eru nú 11 stjórnarmenn sem unnið hafa mjög gott starf á liðnu starfsári. Að formanni meðtöldum bjóða 8 stjórnarmenn fram starfskrafta sína áfram til starfa fyrir körfuna. Sigurður Freyr Árnason  hefur hug á að vinna meira að þjálfun hjá Haukum og vill því minnka við sig vinnu í stjórn deildarinnar, Linda Leifsdóttir hefur sömuleiðis hug á að einbeita sér að starfi í barna- og unglingaráði og hætta í stjórn í bili. Þá hefur Gísli Sævarsson sem tók sæti nafna síns Sigurbergssonar ekki tök á vegna anna að starfa í stjórninni. Vil ég þakka þeim öllum fyrir gott starf á undanförnum árum.

 

Ekki hefur tekist að manna þær 3 stöður stjórnarmanna sem nú eru lausar og er lýst eftir áhugasömum aðilum til að taka sætiní stjórn deildarinnar.

 

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Hauka telur að aðbúnaður körfuknattleiksleikmanna í Haukum hafi vart áður verið jafn góður með tilkomu styrktarþjálfunar og nú nýlega að sjúkraþjálfari verður nú til staðar á öllum leikjum í meistaraflokkum. Við eigum að halda áfram á þeirri braut að skapa leikmönnum Hauka þá bestu aðstöðu og þjálfun sem möguleg er og hvergi slaka á þeim kröfum. Þannig komum við karlaliði okkar einnig í fremstu röð innan skamms.

 

J.                Karatedeild

Árið 2011 hefur starfsemi deildarinnar náð ákveðnu jafnvægi. Það hafa ekki margir fastir iðkendur hætt en það hefur verið sama sem engin nýliðun. Nýliðun hefur einungis verið í yngri flokkum, ekki nein í eldri flokkum. Iðkendur voru um 70 hjá deildinni 2011 sem er smá fækkun frá árinu áður. Það má líklegast rekja til færri nýliða í deildinni

 

Sú áhersla sem lögð var á að skila inn yngra keppnisfólki á síðasta ári hefur byrjað að skila sér. Þó nokkrir yngri keppendur tóku þátt í mótum á árinu fyrir hönd Karatedeild Hauka. Það eru þó áfram Kristján Ó. Davíðsson og Guðbjartur Ísak Ásgerisson sem eru virkustu keppendur deildarinnar og eru að skila sér í vinningssæti á flestum mótum. Kristján er í A-landsliði í kumite.

 

Árangur keppenda á árinu 2011 var eftirfarandi,

 

2. Bikarmót KAÍ 2010-2011.

Kristján 2. sæti Kumite

 

Íslandsmeistaramót  í Kata 2011.

2. sæti hópkata karla: Kristján, Guðbjartur Ísak og Pálmar Dan

 

3. Bikarmót KAÍ 2010-2011.

Guðbjartur Ísak 1. sæti Kumite

Kristján 3. sæti Kumite

 

3. Bushidomót KAÍ 2010-2011.

Ísak Sigfússon 5. sæti Kumite pilta 14-15 ára

Pétur Gíslason 7.-8. sæti Kumite pilta 16-17 ára

 

Bikarmót KAÍ 2010-2011.

Kristján 3. sæti Kumite

Guðbjartur Ísak 5. sæti Kata

 

1. Bushidomót KAÍ 2010-2011.

Katrín Gréta Karlsdóttir 5.-6. sæti Kata 12 ára

Alexander Freyr Bernharðsson 3. sæti Kumite drengja 12-13 ára

Eva Ósk Gunnarsdóttir 3. sæti Kumite telpna 12-13 ára

 

Íslandsmeistaramót í Kumite 2010

Kristján 1. sæti Karlar -75 kg

Kristján 3. sæti Karlar opinn flokkur

Guðbjartur Ísak 2. sæti Karlar -75 kg

2. sæti liðakeppni: Kristján, Guðbjartur Ísak og Helgi Freyr

 

Malmö Karate Open

Firnasterkt Kumitemót með yfir 700 keppendum frá 13 löndum

Kristján 3. sæti Kumite liðakeppni

 

Stokkhólm Open

Yfir 650 keppendur voru á mótinu frá 11 löndum.

Kristján 3. sæti Kumite liðakepni

Nýir þjálfarar bættust við í hópinn hjá deildinni á árinu, Helgi Freyr Jónsson og Hlynur Jóhannsson. Ásamt þeim voru eftirfarandi þjálfarar hjá deildinni árið 2011. Gunnlaugur Sigurðsson, Kristján Ó. Davíðsson, Sigurbjörn Jónsson, Hólmfríður Þórisdóttir, Hákon Ingi Haraldsson og Karl Viggó Vigfússon.

 

Haldnar voru einar æfingabúðir með Sensei Jan Spatzek á árinu.

 

Lagst var í fjáraflanir á árinu til að standa straum af tækjakaupum fyrir deildina. Keyptar voru ketilbjöllur til að nýta við styrktarþjálfun. Keyptar voru hlýfar sem skilda er að nota við keppni yngri keppenda í Kumite. Mikið af búnaði deildarinnar er kominn til ára sinna og þarf að endurnýja töluvert af þeim búnaði sem fyrir er s.s. dýnur og æfingapúða. Því verður að halda áfram með fjáraflanir til að endurnýja þennan búnað.

 

Tekið var upp nýtt hvattningarkerfi hjá deildinni þar sem veittar eru viðurkenningar á hverri önn fyrir bestu mætingu, mestu framfarir og besta árangur á mótum. Þessar viðurkenningar eru veittar í þremur aldursflokkum, barna, unglinga og fullorðins. Útbúnir voru plattar þar sem nöfn þeirra sem vinna á hverri önn eru skráð og hanga þessir plattar fyrir framan salinn.

Einnig er valinn þjálfari hverrar annar og fær hann bæði farand- og eignarbikar.

 

Leiðindamál kom upp vegna óvandvirkra vinnubragða Fréttablaðsins 29. júlí 2011. Þar var forsíðufrétt sem óbeint bendlaði þjálfara deildarinnar við kynferðisbrot í starfi. Í þessari grein var talað um að þjálfari Karatefélags Hafnarfjarðar hefði verið vikið úr starfi vegna kynferðislegrar misnotkunar í starfi. En það félag hefur ekki verið til í 20 ár. Þar sem Karatedeild Hauka er eina starfandi Karatefélagið í Hafnarfirði þá beindust auðvitað sjónir að okkur sem var klárlega að merkja í aukinni tíðni heimsókna á heimasíðu deildarinnar í kjölfar birtingar þessarar greinar.  Unnið var að úrlausn þessa máls í samstarfi við ÍBH og var skoðaður grundvöllur til málshöfðunar á hendur Fréttablaðinu vegna ærumeiðinga en sú skoðun leiddi í ljós að ekki var grundvöllur til þess. Stjórnin sá sig knúna til að birta yfirlýsingu á heimsasíðu deildarinnar til að leiðrétta þær rangfærslur sem farið var með í þessari frétt. Fréttablaðið birti síðar óljósa leiðréttingu á bls. 4.

Ekki er hægt að fullyrða en þó hægt að leiða líkum að þetta hafi haft áhrif á að engir byrjendur á aldrinum yfir 13 hafi skilað sér til deildarinnar þarna um haustið.

 

K.              Almenningsíþróttadeild

 

Tilgangur Almenningsíþróttadeildar Hauka er að efla íþróttaiðkun meðal almennings í Hafnarfirði og standa vörð um hagsmuni félaga sinna. Deildin hefur átt mikilli farsæld að fagna í starfi sínu og félögum fjölga umtalsvert og má þar nefna 26 nýliða sem bættust í hópinn 6.apríl s.l. þegar auglýstur var byrjendahópur í skokki.

Deildin var stofnuð 15. september 2007 og fagnar því fimm ára afmæli í haust.

 

Stjórn deildarinnar

Fráfarandi stjórn hefur starfað frá haustdögum 2009, skipuð þeim;

Margréti Sverrisdóttur ritara.

Antoni Magnússyni meðstjórnanda og vefstjóra.

Valgerði Jónu Guðjónsdóttur gjaldkera.

Sigríði Kristjánsdóttur formanni.

 

Helstu verkefni

Helstu verkefni Skokkhópsins á árinu 2011 voru; VorMaraþon, BerlínarMaraþon, Afmælishlaup Hauka, Kvennahlaup, Jónsmessuhlaup, ReykjavíkurMaraþon, Brúarhlaupið, Kaldárbotnahlaup Hafnarfjarðar og Gamlárshlaup Hauka.

 

Deildin stóð í fyrsta sinn fyrir tveimur keppnishlaupum með tímamælingu og eru félagsmenn reynslunni ríkari nú í upphafi ársins 2012. Í Afmælishlaupi Hauka sem fór fram í aftaka veðri 9. apríl 2011, var keppnisvegalengdin 8,0 km sem er í samræmi við hefðina sem lengist árlega um 100 metra og verður því 8,1 km vorið 2012. Gamlárshlaup Hauka 2011 var 10 km langt og tóku um fjörtíu manns þátt. Stemmingin í gamlárshlaupinu var einstaklega góð en félagar settu skemmtilegan svip á hlaupið sem bæinn með skemmtilegum búningum í tilefni dagsins. Almenningsíþróttadeildin hefur í báðum Haukahlaupum ársins saknað þátttöku félaga annarra deilda Hauka og gerir sér vonir um að þjálfarar félagsins hvetji yngri félagsmenn til þátttöku á árinu 2012.

 

Haukar tóku þátt í undirbúningi og framkvæmd Flensborgarhlaupins sem var þeytt í fyrsta sinn haustið 2011. Verkefnið var á vegum Flensborgarskóla, undir merkinu „Heilsueflandi framhaldsskóli“. Bryndís Jóna Jónsdóttir, Haukafélagi stýrði verkefninu fyrir hönd skólans en verkefnið var samvinnuverkefni Flensborgarskóla, FH og Hauka og var til mikilla fyrirmyndar. Markmiðið með hlaupinu var að fá unga sem aldna út að hlaupa. Haukar geta verið stolt af framlagi sínu til verkefnisins og að stuðla að auknum áhuga almennings á hlaupum.

 

Afrek Skokkhóps Hauka á s.l. ári eru mörg og erfitt að hampa einu umfram öðru, en 100 km keppnishlaup Antons Magnússonar er einstakt afrek. Eysteinn Hafberg byrjaði að skokka 2008 og á árinu 2011 keppti hann í fjórum hálfmaraþonhlaupum. Eysteinn sem kominn er yfir sjötugt hefur sýnt það og sannað að það er aldei of seint að byrja að stunda íþróttir og árangur hans einstakur. Þá er rétt að tíunda að á afmælisárinu hlupu fimm konur frá Almenningsíþróttadeild Hauka heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu og mun sá atburður eflaust rata á spjöld Haukasögunnar.

 

Fimmtíumanna hópur frá Almenningsíþróttadeild Hauka hélt til Berlínar í apríl s.l. til að taka þátt í BerlínarMaraþoninu og þeyttu þar hálft maraþon. Þátttakendur í hlaupinu voru 26 þúsund og þar af fjörtíu og sjö Haukamenn. Hitinn á hlaupadegi var 31°C  og reyndist það mörgum þátttakandanum ofraun. Um 5.000 manns komust ekki á leiðarenda en það gerðu allir Haukafélagarnir sem margir hverjir settu persónulegt met. Það verða ekki einungis hlaupaafrekin sem varðveitast í minningum um Berlínarferðina, heldur einnig það hve ferðin einkenndist af miklum samhug og góðum félagsanda.

 

Íþróttamenn Almenningsíþróttadeildar Hauka árið 2011 eru Eysteinn Hafberg, Kristín Sæmundsdóttir og Álfheiður Gunnarsdóttir.

 

Stofnun Hjólahóps Hauka

Á aðalfundi deildarinnar 2011 var tekin ákvörðun um að víkka út starfssemina og í framhaldi af því var stofnaður Hjólahóp á árinu. Stofnfundurinn haldinn að Ásvöllum á 80 ára afmælisdegi Hauka 12. apríl 2011. Margur vildi vera stofnfélagi Hjólaklúbbs Hauka og skráðu þrjátíu manns skráðu sig á stofnfundinum. Ástundunin varð ekki eins og tilefni var til að ætlast og fámennt á almennum æfingum. Þegar mest var skráðu 45 Hauka félagar hjólaæfingar sínar og hjóluðu hátt í 4000 km í mánuði. Hópurinn hjólaði fram á haust 2011 og verður vonandi öflugri á komandi sumri. Hjólahópurinn er ætlaður öllum almenningi sem áhuga hefur á að stunda reglulega líkamsrækt með því að hjóla um Hafnarfjörð og nágrenni á reglubundnum æfingatímum.

 

Haukabloggið og tölfræðin

Deildin hefur haldið úti mjög virkri bloggsíðu og þar hefur Anton Magnússon staðið sig framúrskarandi vel og eins og á hlaupunum. Á bloggsíðu okkar má finna mikið af upplýsingum, fjöldann allan af myndum frá starfinu og finna ýmsan fróðleik sem ég vil hvetja félag til að kynna sér. Nú í ársbyrjun 2012 hafa um þrjátíuþúsund manns skoðað bloggsíðuna.

 

Í  tölfræðilegum upplýsingum af vefsíðunni hlaup.com má sjá áhugaverðar tölur. Skokkhópur Hauka á bæði flesta hlaupafélaga og flesta virka félaga af skokkhópum landsins en þess má geta að flestir hlaupahópar skrá hlaup sín á vefsíðuna. Á árinu 2011 skráðu 180 Haukafélagar hlaup sín á vefsíðuna. Haukar voru í þriðja sæti hvað varðar hlaupna kílómetra eða 92.000 km á árinu 2011 sem er aukning um 33.500 km frá árinu 2010. Skokkhópur HAUKA  hefur einnig skráð gríðarlegan fjölda kílómetra í hjólreiðum, línuskautum, sundi, göngu ofl.

 

Í dag eru 178 virkir félagar á póstlista Skokkhóps Hauka, auk þrjátíufélaga sem skráðir eru í hjólaklúbb Hauka. Yfir þrjúhundruð manns hafa æft hlaup með Skokkhópi Hauka frá því að skráning hófst sem er án vafa einn virkasti hlaupahópur landsins meðal annars vegna öflugs nýliðastarfs. Í apríl 2011 varð mikil fjölgun félaga. Á þremur æfingum síðast liðins árs mættu 100 félagar á æfingu og fékk Skokkhópurinn verðuga umfjöllun í Morgunblaðinu þar sem sagt var frá einni af 100 manna æfingunni í máli og myndum. Af þessari tölfræði má sjá að Almenningsíþróttadeild Hauka stendur fyllileg undir nafni. 

 

Annað félagsstarf

Almennir félagar í Almenningsíþróttadeild Hauka hafa m.a. skipulagt fjallgöngur undanfarin ár. Síðast liðið sumar gekk sextíumanna hópur á vegum deildarinnar Fimmvörðuhálsinn og sá einn félaginn um leiðsögn og fararstjórn. Deildin stóð fyrir nokkrum fræðslufundum á árinu en auk þess hafa félagarnir sjálfir annast fræðsluerindi fyrir hópinn. Framlag einstakra félaga verður seint þakkað í að gera starfið eins öflugt og gott og raun ber vitni. Í tilefni 80 ára afmælis Knattspyrnufélagsins Hauka gaf Almenningsíþróttadeildin félaginu drykkjarfont m.a. í þeirri viðleitni að sýna hug sinn til félagsins og þeirrar aðstöðu sem deildin nýtur að Ásvöllum.

Uppskeruhátíð deildarinnar var haldið samkvæmt venju að loknu keppnistímabili og þar mættu yfir 90 manns til að fagna góðum árangri sem félagsskap.

 

Að lokum

Á aðalfundinum 7. Febrúar 2012, urðu breytingar í stjórn deildarinnar en þær Margrét Sverrisdóttir og Valgerður Jóna Guðjónsdóttir létu af störfum. Sigríður Kristjánsdóttir stofnandi skokkhópsins og formaður deildarinnar frá sept. 2007 lét af störfum sem formaður deildarinnar en situr áfram í stjórn deildarinnar.

 

Rætt hefur verið um frekari eflingu Almenningsíþróttadeildarinnar. Aðalstjórn Hauka hefur tjáð vilja sinn um að deildin verði innan Rekstrarfélags Hauka. Ný stjórn deildarinnar á fyrir höndum viðræður við aðalstjórn og framkvæmdastjóra félagsins þar að lútandi og mun mögulega móta nýtt landslag deildarinnar.

 

L.               Skákdeild

 

Starfsemi skákdeildar hefur verið með rólegra móti á árinu.  Deildin hefur þó haldið úti líflegu barna og unglingastarfi á þriðjudögum frá 17-19.

 

Barna- og unglingastarfinu er skipt í  tvö hópa.  Yngri hópur er miðaður við 4. bekk og yngri en eldri hópur 5. bekk og eldri.  Alls hafa 30 til 35 krakkar mætt á skákæfingar á starfsárinu.  Í yngri hópnum er áhersla lögð á grunnatriði skáklistarinnar, en í þeim eldri er meiri áhersla á keppni, læra byrjanir og aðeins erfiðari þrautir.

Góð þátttaka var í skólaskákmóti Hafnarfjarðar 2011 sem jafnframt var páskamót Hauka. Skólaskákmeistarar Hafnarfjarðar 2011 urðu:

 

Í yngri flokk Sóley Lind Pálsdóttir Hvaleyrarskóla, Magni Marelsson Hvaleyrarskóla og Erik Jóhannesson Engidalsskóla (Víðistaðaskóla).

Í eldri flokk þeir Jón Hákon Ricther Öldutúnsskóla,  Hans Adolf Linnet Setbergsskóla og Markús Svavar Lubker Víðistaðaskóla.

Ný stjórn skákdeilar var kjörin 7. febrúar s.l., auk þess sem skipað var í barna og unglingaráð.  Vonir eru um að starfsemi deildarinnar fyrir eldri iðkendur muni ná sér á strik á starfsárinu.

 

M.             Félagsráð

 

Sl. vor hafði  stjórn Félagsráðs ákveðið að  styrkja útgáfu 20 sögu félagsins með 1 milljón króna framlagi. Þegar ljóst var að miklir fjárhagserfiðleikar steðjuðu að félaginu og aðalstjórn félagsins ákveðið að fresta útgáfu bókarinnar og jafnframt  óskað eftir fjárstuðningi Félagsráðs,  var ákveðið á fundi í september sl.,  að milljón króna framlagið myndi renna til Barna- og unglingaráðs til styrktar grasrótinni. Þá var og ákveðið að hækka ríflega árgjaldið sem myndi renna óskert  til barna og unglingastarfsins. Var þessi ákvörðun kynnt félagsmönnum bréflega. Mun árgjaldið væntanlega lækka þegar sér til sólar á ný.

 

N.              Öldungaráð

 

Að venju voru spilakvöld haldin einu sinni i mánuði eða samtals níu. Sú nýbreytni var tekin upp að  nú hófust  spilakvöldin klukkan 18 og var léttur kvöldverður borin fram klukkan sjö. Þessi nýbreyti hefur mælst vel fyrir. Tvöföldu stórafmæli var fagnað á árinu ,  80 ára afmæli félagsins og 20 ára afmæli Öldungaráðs,  sem stofnað var 17. október 1991. Því fagnaði Öldungaráð með  síðdegisboði á afmælisdaginn þar sem margir góðir gestir nutu stundarinnar við veisluborð. Í tilefni 80 ára afmælis félagsins greiddi  Öldungaráð   kostnaði við merkingar á funda – og skrifstofuherbergjum félagsins hér á Ásvöllum. Herbergin bera nöfn úr 80 ára sögu félagsins, formanna og staða  tengdum sögunni.  Vorferðin var farin 8. júní að Hraunsnefi í Borgarfirði þar sem góður Haukamaður, Jóhann Harðarson, rekur glæsilega ferðaþjónustu ásamt konu sinni. Áttu menn þar góðan dag. Dagana 14. og 15. september dvaldi  rúmlega 30 manna hópur Öldungaráðs í góðu yfirlæti við náttúruperluna Gullfoss þar sem menn undu glaðir við sitt á Hótel Gullfossi. Á heimleiðinni var komið við í Forsæti og Vatnsholti. Tókust ferðir þessar báðar  í alla staði vel. Stjórn Öldungaráðs hét 6 fundi á árinu – stjórnina skipa: Jón Kr. Jóhannesson formaður, Ruth Guðmundsdóttir, Kristín Bjarnadóttir, Rannveig Ólafsdóttir og Hjálmar Ingimundarson.

 

O.              Haukar í horni – stuðningsmenn

 

Það er öllum  hollt að horfa um öxl og horfa yfir farinn veg,  því það fennir í sporin.

Eftir að járntjaldið féll 1989 urðu miklar samfélagsbreytingar þar eystra og öll samskipti þangað  urðu auðveldari en áður. Handknattleiksdeild Hauka hafði um þetta leyti ákveðið að blása til sóknar og koma handboltanum í félaginu í fremstu röð. Tékkóslóvakía var á þeim tíma  ein sterkasta handknattleiksþjóð heimsins. Viðræður hófust og það ótrúlega gerðist, að einn besti hanboltamaður Tékka, Petr Baumruk,  undirritaði 2ja ára samning við Hauka og þar með hófst saga „Hauka í horni“.

Til að létta undir miklum kostnaði þessu fylgjandi skuldbundu 70 – 80  stuðningsmenn sig til að greiða mánaðarlega ákveðna upphæð sem rynni til verkefnisins. Og allir vita hvernig til tókst. Haukar komust í fremstu röð þar sem þeir hafa verið síðan.

Þar til fyrir nokkrum árum var þessi stuðningur tengdur handboltanum.  Í  dag rúmum 20 árum frá stofnun Hauka í horni hefur hópurinn stækkað  og eflst og  fara framlög stuðningmanna,  sem telja  um 250 – 300 einstaklingar og fyrirtæki,  í margvísleg verkefni félagsins,  óháð deildum eða íþróttagreinum.

 

P.               Getraunastarfið 1x2

 

Endurvakið getraunastarf félagsins hófst haustið 2009 með öflugu átaki sem leiddi til þess að  starfið hefur dafnað og blómgast síðan.  Hópur 8 sérfræðinga heldur utan um verkefnið  og skipuleggur,  og þar sannast hið fornkveðna „ margar hendur vinna létt  verk.“ 

 

Q.             Saga Hauka 1991-2011

 

Þegar hillti undir útgáfu 20 ára sögu félagsins á haustdögum var orðið ljóst að fjárhagserfiðleikar þeir er félagið hafði barist við myndu hugsanlega  raska útgáfu bókarinnar. Á fundi aðalstjórnar félagsins þann 22. september  var samþykkt tilllaga þess efnis að fresta  útgáfu bókarinnar um óákveðinn tíma. -  Fyrir marga, m.a. ritnefnd,  voru þetta óneitanlega vonbrigði en þar sem ákveðið var að  þeim fjármunum er  sparast  myndu  yrði ráðstafað til styrktar barna- og unglingastarfi félagsins  var þessi ákvörðun ásættanlegri.

 

R.              Afmælisárið

Segja má að afmælisárið hafi byrjar með glæsibrag þegar þúsundir marglitra  ljósa prýddu stjörnubjartan himininn yfir Ásvöllum að viðstöddum miklum fjölda fólks á Þrettándagleði félagsins 6. janúar.

 Síðan rak hver viðburðurinn annan og allir lögðust á eitt við  að gera þennan merkisáfanga í sögu félagsins ógleymanlegan,  þó er hlutur afmælisnefndarinnar þar stærstur og eru henni i færðar bestu þakkir. Of langt mál yrði að telja upp alla atburði afmælisársins  en með því að stikla á stóru ber þó afmælishátíðina, sem haldin var 9. apríl, hæst.

 Í glæsilegum íþróttasalnum með kræsingum hlöðnum borðum skemmtu um 500 veislugestir sér fram á rauða nótt undir dillandi tónum hljómlistarmanna. Margar góðar gjafir voru félaginu færðar og fjölmargir  félagar og stuðningsmenn fengu viðurkenningar félagsins fyrir góð störf.  - Þá má geta 20 ára afmælis Karatedeildarinnar sem og Öldungaráðs Hauka. Sérstakur hátíðarfundur var  haldinn á afmælisdaginn 12. apríl. 

Það er almennt mál manna að afmælisárið hafi tekist hið besta og hafi verið félaginu til sóma. Tækifærið er því notað hér til að þakka þeim fjölmörgu  er  hönd lögðu á plóginn, Haukafélögum og öðrum.

  

S.               Heimasíðan

 

Heimasíða Hauka hefur nú um langt skeið  verið með óbreyttu sniði.  Síðan er rekin á Joomla 1,5 vefkerfi sem  skilar sínu fullkomlega.  Það er mikill kostur í rekstri Hauka að öll þjónusta er án kostnaðar fyrir félagið. 

Á árinu hefur gengið ágætlega að skrifa fréttir á síðuna og hún þjónar líka sem safn sögu Haukanna. 

 

T.               Fjármál

 

Haukar hafa rekið íþróttamiðstöðina að Ásvöllum frá 2001 með rekstrarstyrk frá Hafnarfjarðarbæ.    Árið 2009 var gerður kyrrstöðusamningur þar sem Haukar samþykktu að fella niður verðtryggingu á samningnum.  Árið 2010 var gerður nýr kyrrstöðusamningur.   Árið 2011 breytti Hafnarfjarðarbær einhliða rekstrarframlagi til lækkunar um 15% með litlum fyrirvara og í andstöðu við ákvæði rekstrarsamningsins.

 

Ljóst er að þessi aðgerð Hafnarfjarðarbæjar gerði rekstur félagsins mjög erfiðan  á síðasta starfsári. Haukar hafa ákveðnar skyldur gagnvart starfsfólki og birgjum og þær skuldbindingar  hefur félagið engin tök á að  lækka einhliða.

 

Haukar hafa nú brugðist við lækkun á rekstrarstyrk með styttingu á opnunartíma úr 116 tímum á viku í 90 tíma á viku og lækkað  starfshlutfall í mannvirkjunum úr 11 í 7.   Sá niðurskurður tók gildi 1. nóvember 2011.  Bein afleiðing á lækkun á rekstrarstyrknum er  tap á rekstri Hauka á árinu 2011, sem hefur gerir að verkum að félagið skuldar  nú vegna ýmissa rekstrarliða íþróttamannvirkja.

 

Meðal þess sem félagið gerði á árinu til að reyna að rétta úr fjárhag félagsins var að selja nafn íþróttamannvirkisins til flutningafyrirtækisins DB Schenker og heita íþróttamannvirki félagsins nú annars vegar DB Schenker höllin og hins vegar DB Schenker völlurinn.  Samningurinn er til tveggja ára og þeir fjármunir sem fengust við þetta skipta félagið miklu máli.   Viðbrögð Hafnarfjarðarbæjar við þessum samningi og merkingu á mannvirkjum voru nokkuð einkennileg í því ljósi að erfið rekstrarstaða var bein afleiðing af lækkun rekstrarstyrks. 

 

Það er sjálfstætt skoðunarefni hvort Haukar eigi að leita réttar síns fyrir dómstólum með sama hætti og sjálfseignarstofnunin í Sólheimum gerði gagnvart ríkinu.  Það er ekki sjálfgefið að rekstur vegna skóla og íþróttamannvirkja bæjarins sé skorinn niður einhliða og án samráðs.

 

Þótt fjárhagur félagsins sé þungur þá er agi á rekstrinum og sá agi mun vonandi skila félaginu ósködduðu úr þeim þrengingum sé nú er barist við.  Til lengri tíma er hins vegar sú von að frekar fyrr en síðar náist að auka tekjur félagsins þannig,  að reksturinn verði jákvæður.   Áður en það takmark næst þarf að leysa mál félagsins gagnvart Landsbanka Íslands.  Það verður hins vegar tæplega leyst án aðkomu Hafnarfjarðarbæjar.  

 

U.              Rekstrarfélag

Meistaraflokkar boltadeilda félagsins eru reknir í  Rekstrarfélagi Hauka ehf.   Samstarfið milli deilda hefur gengið mjög vel á starfsárinu og komin er festa í þetta rekstrarfyrirkomulag.  Auðvitað eru menn ekki alltaf sammála en hins vegar hafa menn alltaf náð samkomulagi um framgang mála og það eru allir stjórnarmenn sammála um að félagið eigi að hafa lið í fremstu röð á öllum vígstöðvum.  Það verður hins vegar aðeins gert með markvissu uppbyggingarstarfi yngri leikmanna ásamt átaki í fjáröflunum félagsins. 

Aðalfundur rekstrarfélagsins var haldinn 14. febrúar 2012 og nú skipa stjórn Rekstrarfélagsins: Samúel Guðmundsson formaður, Jón Björn Skúlason og Valdimar Óskarsson. Framkvæmdastjóri er Magnús Gunnarsson.

 

V.              Íþróttahátíð Hauka

 

Á Gamlársdag hittast Haukafélagar gjarnan  og gleðjast saman og  heiðra sitt afreksfólk. Hápunktur hátíðarinnar er val á Íþróttakonu Hauka, Íþróttamanni Hauka og Þjálfara Hauka. Kosning fer fram á jólafundi aðalstjórnar skv. reglum sem samþykktar voru 2010. Að þessu sinni hlutu eftirtalin þessar viðurkenningar:

 

Íþróttakona Hauka 2011: Íris Sverrisdóttir, körfuknattleikskona.

Íþróttamaður Hauka 2011: Aron Rafn Eðvarðsson, handknattleiksmaður.

Þjálfari Hauka 2011: Aron Kristjánsson, handknattleiksþjálfari.

 

Á hátíðinni voru einnig veittar viðurkenningar til landsliðsfólks Hauka  og skrifað var undir samninga við framtíðaríþróttamenn  félagsins.

 

W.            Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (ÍBH)

Samskipti Hauka við ÍBH voru  með hefðbundnum hætti á árinu.   ÍBH gætir hagsmuna félagsins og annarra íþróttafélaga gagnvart Hafnarfjarðarbæ.  Ársþing ÍBH var haldið í apríl s.l.  Fulltrúar Hauka í stjórn ÍBH eru Guðbjörg Norfjörð, aðalmaður og Heimir Heimisson til vara. 

 

X.              Hafnarfjarðarbær

Hafnarfjarðarbær er mikilvægur samstarfsaðili félagsins og það hlýtur að vera keppikefli bæjaryfirvalda að halda úti öflugu íþróttastarfi.  Það verður hins vegar að segjast að samskipti embættismanna og kjörinna fulltrúa bæjarins við íþróttafélögin hafa oft verið betri. 

Því miður hefur sú rödd heyrst ítrekað að fjármunir sem íþróttahreyfingin fær séu óþarflega miklir.  Þar gera menn gjarna lítinn greinarmun á framlögum til skólamannvirkja eða greiðslum bæjarins til foreldra íþróttabarna.  Þessir fjármunir renna þó að engu leyti sem greiðslur til íþróttafélaganna, þó þeir geri að verkum að félögin geta haldið uppi öflugu íþróttastarfi.

 

Y.               Lokaorð

 

Þegar litið er til baka yfir rekstur síðasta árs, þá kemur fyrst upp í hugann þakklæti til allra Haukafélaga sem tekið hafa þátt í því að gera þetta afmælisár ógleymanlegt. 

Síðustu tíu ár hafa verið félaginu gjöful.  Við höfum byggt upp frábært félag þar sem allir vinna saman að því að gera gott félag betra.

Framtíðin er björt.  Á gamlársdag voru landsliðsmenn Hauka heiðraðir.  Það var ágæt áminning til okkar um að við eigum ótrúlega stóran hóp af afreksfólki.  Frábært uppbyggingarstarf í yngri flokkunum mun halda áfram að skila félaginu afreksfólki.    Á næstu 10 árum munum við vafalaust sjá knatthús rísa á Ásvöllum auk sérstaks íþróttasalar fyrir körfuknattleiksiðkun og áhorfendastúku.    Allt þetta mun koma með hæfilegri blöndu af þolinmæði og ýtni við bæjaryfirvöld. 

Við þurfum hins vegar að halda áfram að standa saman og standa vörð um hagsmuni Haukanna. 

Við stefndum að því að gefa út viðbót við sögu Haukanna á árinu.  Erfiður rekstur varð þess valdandi að þeirri  útgáfu seinkaði.  Það er aftur lag að gefa út þá bók á 85 ára eða 90 ára afmæli félagsins. 

Framkvæmdastjóraskipti urðu í félaginu á árinu.  Heimir Heimisson lét af störfum og í hans stað var ráðinn Magnús Gunnarsson.   Það er mikill fengur fyrir Hauka að fá Magnús til starfa.  Þótt Heimir láti af störfum sem framkvæmdastjóri þá er hann ekki að fara neitt og hann verður áfram í framvarðarstöðu í stjórnum félagsins.     

Þegar sá sem hér stendur gaf kost á sér í formannsstól árið 2006 þá var það gert sem fimm ára verkefni.  Á síðasta aðalfundi hófst 6. starfsárið og nú að því loknu er ég aftur í framboði.  Nú í fyrsta sinn veit ég ekkert hvað ég verð lengi í þessu og það er örugglega ekki gott.  Það hafa hins vegar allir sinn vitjunartíma og sá tími mun örugglega koma fyrr eða síðar. 

 

 ____________________

3.  Reikningar félagsins.

Reikningar félagsins voru lagðir fram og skýrðir af framkvæmdastjóra félagsins. Fram kom að staða félagsins er þokkaleg í ljósi aðstæðna.  Engar umræður urðu um skýrslu stjórnar og reikninga og voru reikningar samþykktir einum rómi.

4.  Kosning stjórnar.

Formaður: Ágúst Sindri Karlsson

Varaformaður: Heimir Heimisson.

Gjaldkeri: Guðborg Halldórsdóttir

Tilnefningar 8 stjórnarmanna frá deildum staðfestar: 

Handbolti: Þorgeir Haraldsson og Elva Guðmundsdóttir

Karfa: Samúel Jónsson og Reynir Kristjánsson

Fótbolti: Jón Björn Skúlason og Jón Erlendsson

Karate: Gísli Þór Magnússon

Almenningsdeild o.fl.: Anton Magnússon

5.  Kosning endurskoðanda.

 Kosning 2ja  skoðunarmanna ársreiknings: Hermann Þórðarson og Viðar Jónsson

6.  Lagabreytingatillögur lágu ekki fyrir. 

7.  Engin önnur mál lágu fyrir. 

Eftir að formaður hafði þakkað fundarmönnum góða mætingu sleit fundarstjóri þessum aðalfundi að hætti Hermanns Guðmundssonar með ferföldu húrrahrópi um kl. 18:30

 

Síðast uppfært ( Föstudagur, 17 Febrúar 2012 10:06 )  
Borði
No images

Vefpóstur

Nafn:
Lykilorð:

Leikir vikunnar

Mánudagurinn 15.des.
Olís deild kk. Valur - Haukar kl. 19:30
3. fl. kv. ÍR - haukar1 kl. 18:30

Þriðjudagurinn 16. des.

Miðvikudagurinn 17 .des.
Dominos deild kv. KR - Haukar kl. 19:15
4. fl. kv. Haukar2 - Fjölnir kl. 17:00

Fimmtudagurinn 18. des.
Olís deild kk. Haukar - Afturelding kl. 19:30

Föstudagurinn 19. des
Dominos deild kk. Keflavík - Haukar kl. 19:15
3. fl. kv. Haukar1 - ÍBV kl. 17:20
3. fl. kv. Haukar2 - ÍBV kl. 20:15
3. fl. kk. Þróttur2 - Haukar2 kl. 19:00

Laugardagurinn 20. des.
4. fl. kk. FH1 - Haukar1 kl. 12:30

Sunnudagurinn 21. des.Molar

Meistaraflokkslið Hauka í handbolta varð Íslandsmeistari á fjórða íslandsmótinu í handknattleik árið 1943, og urðu þar með fyrsta hafnfirska félagið til að verða Íslandsmeistari í flokkaíþrótt.

samstarfsadilar

Borði