Rún og Sigurrós Eir semja við knattspyrnudeild Hauka

Rún Friðriksdóttir og Sigurrós Eir Guðmundsdóttir skrifuðu í dag undir samninga við knattspyrnudeild Hauka.

Rún sem er uppalin hjá Haukum á að baki 77 leiki með meistaraflokki en hún lék sinn fyrsta leik árið 2008. Síðastliðið sumar lék hún 6 leiki með Haukum í Pepsí deildinni, eftir að hafa verið fyrripart sumars á láni hjá Þrótti í 1.deildinni en þar lék hún 10 leiki. Eftir síðasta tímabil gekk Rún svo til liðs við svissneska liðið FC Aarau Frauen sem leikur í úrvalsdeildinni þar í landi og lék með liðinu fyrri hluta tímabilsins ytra.

„Það er afar ánægjulegt að Rún sé komin aftur í Hauka því hún er öflug innan sem utan vallar. Rún er vinnusamur miðjumaður með gott auga fyrir spili og á eftir að styrkja okkur mikið á öllum sviðum. Leiðtogahæfni og reynsla hennar mun klárlega nýtast okkar unga liði,“ segir Jakob Leó Bjarnason þjálfari meistaraflokks kvenna.

Sigurrós Eir kemur frá Þrótti þar sem hún hefur leikið undanfarin þrjú tímabil. Sigurrós á að baki 103 leiki með Keflavík og Þrótti.

„Sigurrós Eir er kröftugur miðjumaður sem á eftir að koma með reynslu og aukin gæði inn í okkar lið. Hún smellpassar inn í okkar hugmyndafræði og það verður gaman að sjá hana vaxa og dafna á Ásvöllum. Þar að auki er Sigurrós fjölhæfur leikmaður og mun hiklaust gera aðra leikmenn í kringum sig betri,“ segir Jakob Leó.

Rún og Sigurrós við undirskrift samnings í dag.