Liðstyrkur til Haukakvenna

Hekla Rún hefur samið við Hauka. Mynd: Haukar.is (Frjáls til afnota).

Meistaraflokkur kvenna í handbolta hefur fengið góðan liðstyrk fyrir seinni hluta tímabilsins í Olísdeildinni en Hekla Rún Ámundadóttir hefur gengið til liðs við Hauka frá Aftureldingu.

Hekla Rún er fæddi árið 1995 og er því 23. ára á árinu en hún er uppalin í ÍR en gekk til liðs við Fram fyrir tímabilið 2011-2012 þar sem að hún lék í 6 tímabil með meistaraflokki Fram í efstu deild. Fyrir þetta tímabil gekk hún svo til liðs við Aftureldingu þar sem að hún lék með liðinu í Grill 66 deild kvenna fyrir áramót. Auk þess hefur Hekla leikið fyrir öll yngri landslið Íslands en hún er örvhent og getur bæði spilað í horninu og skyttunni hægra megin.

Þessi liðstyrkur er kærkominn fyrir Haukaliðið sem er í harðri baráttu í Olísdeild kvenna þar sem að liðið er í 2. sæti 3 stigum á eftir Val sem er í toppsætinu þegar að 9 umferðir eru eftir af deildinni. Einnig er liðið komið í 8-liða úrslit Coca-Cola bikars kvenna þar sem að liðið mætir HK í byrjun febrúar.

Hekla er komin með leikheimild en hún gerði samning við Hauka fram á sumar 2019 og er því lögleg þegar að Haukastúlkur mæta fram í fyrsta leik eftir jólafrí á sunnudaginn kl. 17:30 í Schenkerhöllinni. Við bjóðum Heklu Rún kærlega velkomna í Hauka!