Haukastúlkur fögnuðu með Söru Björk og byggja upp stemningu fyrir Pepsí

Meistaraflokkur kvenna hjá Haukum er kominn heim eftir afar vel heppnaða ferð til Wolfsburg.

Lokahnykkur ferðarinnar var að sjá toppslag Wolfsburg-Bayern München í Bundisligu kvenna en liðin voru fyrir leikinn í 2. og 3. sæti deildarinnar. Leikurinn var hin besta skemmtun þar sem Sara Björk spilaði allan leikinn á miðjunni. Mikil fagnaðarlæti voru í leikslok þegar Wolfsburg sigraði leikinn 2-0 og færist nær því að tryggja meistaradeildarsæti á næsta keppnistímabili. Liðið heldur líka mikilli pressu á toppliðið Potsdam.

Gaman að sjá aðbúnaðinn hjá einu besta kvennaliði Evrópu

„Þetta var frábær ferð og forréttindi að fá að heimsækja lið sem er að fara spila í fjórðungsúrslitum meistaradeildarinnar í vikunni. Móttökurnar voru góðar og allir tilbúnir að gera allt fyrir okkur og gaman að sjá hvernig aðbúnaðurinn er hjá einu besta kvennaliði Evrópu. Ferðin þjappaði hópnum saman og við munum áfram æfa vel fyrir Pepsí deildina í sumar. Við stefnum að því að skemmta okkur í sumar og sýna hvað við getum,“ segir Alexandra Jóhannsdóttir, leikmaður Hauka og landsliðskona í U17.

Ferð sem stendur upp úr

„Ég veit ekki hvað ég er búinn að fara í margar fótboltaferðir en þessi stendur upp úr. Ég hef aldrei lært jafn mikið á jafn skömmum tíma um hvað hægt væri að gera og hvernig. Nú er bara að sjá hvernig við getum nýtt okkur þennan lærdóm,“ segir Jón Björn Skúlason, varaformaður knattspyrnudeildar Hauka. „Við erum nú með afar dýrmæt tengsl sem við munum nýta okkur áfram“.

Sara Björk tók selfie með Haukastelpunum í bakgrunni eftir leikinn við Bayern.

Sara Björk tók selfie með Haukastelpunum í bakgrunni eftir leikinn við Bayern.