Haukar halda í Garðabæinn

stjahaukEftir vonbrigðin um helgina þar sem strákarnir í meistaraflokki í handbolta duttu út úr EHF-bikarnum þrátt fyrir flotta frammistöðu þá er komið að því að færa þá frammistöðu yfir í Olísdeildina. Það tækifæri fá þeir á morgun, fimmtudag, þegar að þeir mæta Stjörnunni á útivelli en leikið er í TM-höllinni við FG og hefst leikurinn kl. 19:30.

Fyrir leikinn eru Stjörnumenn á góðu róli í deildinni en þeir eru sem stendur í 3. sæti með 8 stig úr 7 leikjum en í síðustu umferð unnu þeir Selfoss á útivelli. Það er því greinilegt að Stjörnumenn eru engir venjulegir nýliðar og sýndi liðstyrkurinn sem þeir fengu fyrir tímabilið það, en þá fengu þeir meðal annars markvörðinn Sveinbjörn Pétursson sem varið hefur einkar vel það af er tímarbili og einnig fengu þeir Ólaf Gústafsson en hann hefur þó átt við meiðsli að stríða að undaförnu.

Haukamenn hafa ekki náð sér á strik í deildinni í vetur en hafa þó sýnt það í Evrópuleikjunum gegn Alingsås að þeir kunna alveg að spila góðan handbolta og það er því komið að því að þeir fari að sýna það líka í deildinni hversu megnugir þeir eru. En fyrir umferðina eru þeir með aðeins 4 stig úr 7 leikjum í 9. og næst síðasta sæti deildarinnar 0g því satt best að segja að Haukamenn þurfi að fara að vinna sig upp töfluna.

Það er því um að gera fyrir allt Haukafólk að fjölmenna í Garðabæinn á morgun, fimmtudag, en leikurinn hefst kl. 19:30 og má búast við hörkuleik þar sem bæði lið vilja ólm ná í bæði stigin. Áfram Haukar!