Haukar fá topplið Dominos deildar kvenna í heimsókn miðvikudaginn 1. febrúar kl. 19:15

haukar kvennaHörð barátta er í Dominos deild kvenna, bæði á toppnum og á botni. Hið unga lið Hauka er að berjast í neðri hlutanum og þurfa nauðsynlega á sigrum að halda til að fjarlægast botninn og eiga möguleika á því að komast í úrslitakeppnina.

Haukar sitja núna í næst neðsta sæti (nr. 7), tveim leikjum á undan botnliði Grindavíkur. Skallagrímsk0nur styrktu lið sitt vel fyrir tímabilið og hafa verið að spila vel og þá sérstaklega á nýju ári og hafa þær náð því að komast á toppinn í deildinni. Ljóst er að heimastúlkur þurfa að spila gríðarlega vel til að ná fram hagstæðum úrslitum.

Haukarnir hafa verið að spila nokkuð vel eftir áramót og hafa barist vel í sókn og vörn en tapaðir boltar hafa verið það sem hefur háð liðinu og gert það að verkum að sigrar hafa ekki náðst í jöfnum leikjum, eins og t.d. á móti Keflavík. Nú þurfa þær að vera skynsamar í sókninni og passa boltann vel og spila agaðan leik og þá ætti að koma sigur í hús.

Við hvetjum alla til að mæta í Schenkerhöllina og hvetja stelpurnar áfram en þetta er jafnframt síðasti leikur stelpnanna fyrir undanúrslitin í bikarnum í næstu viku.