Haukar – Breiðablik fimmtudaginn 25. okt. kl. 19:15 í Schenkerhöllinni

Haukar fá nýliða Breiðabliks í heimsókn fimmtudaginn 25. október og hefst leikurinn kl. 19:15.

Leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði, Breiðablik að leita að sínum fyrsta sigri og deildarmeistarar Hauka að reyna að komast aftur á sigurbraut eftir tvo tapleiki í röð.
Haukaliðið spilaði mun betur á móti Tindastól en í heimaleiknum á móti ÍR og eru strákarnir staðráðnir í því að sýna stuðningsfólki annan og betri leik en í síðasta heimaleik á móti ÍR. Breiðablik hefur verið að spila vel, þó svo að þeir hafi ekki náð í sigur og ljóst er að þeir verða erfiðir mótherjar og því þarf Haukaliðið að koma tilbúið til leiks og leggja allt í sölurnar.
Tveir Haukamenn eru í Blikaliðinu, en Pétur Ingvars er þjálfari liðsins og hefur verið að gera góða hluti með þá og svo er sonur Péturs, Hilmar, einn aðal leikstjórnandi liðsins. Það verður gaman að fá þá feðga í Schenkerhöllina, þó svo að þeir muni væntanlega ekki vera teknir neinum vettlingatökum í leiknum.

Við hvetjum allt Haukafólk til að mæta snemma, fá sér „börger“ og taka þátt í stemningunni.

Áfram Haukar.