Haukar á ársþingi KSÍ

Knattspyrnufélagið Haukar átti þrjá fulltrúa á ársþingi KSÍ sem haldið var á Nordica Hotel í gær. Fulltrúar Hauka í ár voru þeir Eiður Arnar Pálmason, formaður knattspyrnudeildar, Jón Björn Skúlason, varaformaður knattspyrnudeildar, og Halldór Jón Garðarsson, formaður meistaraflokksráðs kvenna og meðstjórnandi í barna- og unglingaráði kvenna. Halldór og Karl Guðmundsson, gjaldkeri stjórnar og meðstjórnandi í meistaraflokksráði kvenna, sóttu einnig málþing KSÍ sem haldið var á föstudaginn.

Um ansi spennandi og áhugavert þing var að ræða, m.a. út af formannskjöri, stjórnarkjöri, lagabreytingum og ýmsum tillögum sem lágu fyrir.

Breiðablik var t.d. með tillögu um varalið í meistaraflokki kvenna og steig Jón Björn í pontu fyrir hönd Hauka þar sem hann mótmælti tillögunni harðlega og hélt langa og öfluga ræðu þar sem hann sagði meðal annars að breytingin gæti haft það í för með sér að bilið myndi breikka ennþá meira á milli stærri og minni félaga þar sem yngri leikmenn myndu í ríkari mæli fara í stærri félög eins og segir í frétt á Fotbolti.net

Jón Björn óskaði eftir að tillögunni yrði vísað frá og þess í stað að stofnaður verði starfshópur um heildarendurskoðun á kvennaknattspyrnu og stefnumótun til framtíðar. Það var samþykkt á þinginu með meginþorra atkvæða.

Áfram Haukar. Félagið mitt.