Handboltatímabilið komið af stað

Björgvin varði mjög vel í leiknum gegn ÍR. Mynd: Vísir-Ernir

Það var mikið um dýrðir í Schenkerhöllinni í gær þegar að meistaraflokkar karla og kvenna hófu leik í Olísdeildunum í handbolta. Það voru strákarnir sem riðu á vaðið þegar að þeir mættu ÍR en ÍR eru nýliðar í deildinni en hafa styrkt sig vel fyrir tímabilið og því um hörkuleik að ræða.

Það voru Hauka strákarnir sem byrjuðu leikinn betur og voru þeir fljótlega komnir í 6 – 3 og svo þegar að langt var liðið á hálfleikinn var forskotið komið í 5 mörk 11 – 6 en í hálfleik var staðan svo 13 – 9. Seinni hálfleikur byrjaði á að þróast svipað og sá fyrri en þegar að hann var hálfnaður þá voru Haukar með 18 – 13 forystu. Þá hrökk sóknarleikurinn eitthvað í baklás og þegar að 3 mínútur lifðu leiks voru gestirnir búnir að minnka muninn í 1 mark 20 – 19 en það voru Haukastrákarnir sem kláruðu leikinn með því að skora síðasta mark leiksins og niðurstaðan 21 – 19 sigur.

Flottur sigur staðreynd þar sem að vörn og markvarsla var til fyrirmyndar og sóknarleikurinn lengst af þokkalegur en maður leiksis var markmaður Hauka Björgvin Páll en hann varði um 50% þeirra skota sem á hann kom í leiknum. Markahæstir Hauka í leiknum voru Tjörvi og Hákon Daði með 5 mörk en næstur kom Atli Már með 4 mörk.

Þá var komið að stelpunum en þær komu ekki alveg tilbúnar til leiks og voru Valsstúlkur fljótlega komnar í 5 – 2 og heldu þær frumkvæðinu út fyrri hálfleikinn og bættu í forskorið þar sem að Haukar áttu í vandræðum með sóknarleik þeirra og staðan því í hálfleik 17 – 11.

Haukastelpur komu vel stemmdar inn í seinni hálfleikinn og spiluðu þær miklu betri varnarleik sem leiddi til þess að þær minnkuðu muninn jafnt og þétt. Þegar að 13 mínútur voru búnar að seinni hálfleik var staðan orðin jöfn 19 – 19 en þá náðu gestirnir góðum kafla og þegar að 5 mínútur lifðu leiks voru þær með 25 – 21 forystu. Haukastúlkur reyndu hvað þær gátu í lokin en allt kom fyrir ekki og 25 – 24 sigur Vals staðreynd.

Það var varnaleikurinn í fyrri hálfleik sem varð Haukastúlkum að falli ásamt því að þær fóru illa með margar sóknir einu fleiri í seinni hálfleik. Markahæst Hauka í leiknum var Guðrún Erla með 7 mörk og næst kom Maria með 6 mörk en þar sem að varnarleikurinn var ekki upp á marga fiska í fyrri hálfleik var markvarslan eftir því og vörðu þær Elín Jóna og Tinna saman 9 bolta.

Næst mæta Haukastrákrnir ÍBV þegar að Eyjamenn koma í heimsókn í Schenkerhöllina á sunnudaginn kl. 18 en stelpurnar halda út á Seltjarnarnes þriðjudaginn 19. september kl. 19:30 en nánar um þessa leiki síðar og áfram Haukar!