Drengjaflokkur og unglingaflokkur kvenna spila til úrslita um Íslandsmeistaratitil í dag.

HaukarDrengjaflokkur2017Bæði drengjaflokkur og unglingaflokkur kvenna unnu sína undanúrslitaleiki og eru komin í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitil. Drengjaflokkur spilar gegn KR kl. 14:00 og unglingaflokkur kvenna við Keflavík kl. 16:15 og fara báðir leikirnir fram í Dalhúsum, Grafarvogi.

Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu á FB síðu Fjölnis hér.

Drengjaflokkur lék gegn Íslandsmeisturum síðustu tveggja ára, ÍR, í undanúrslitum og var leikurinn æsispennandi og vel leikinn af báðum liðum. Haukar byrjuðu gríðarlega vel og náðu mest 16 stiga forystu í fyrri hálfleik en ÍRingar gáfust ekki upp heldur enduðu sterkt annan leikhluta og náðu að minnka forystu Hauka niður í sex stig fyrir hálfleik. Baráttan var gríðarleg í seinni hálfleik og mikil spenna í leiknum og var mikill stuðningur af fjöldamörgum áhorfendum í stúkunni. ÍR náði 8 stiga forystu er um 5 min. voru eftir af fjórða leikhluta og um leið fékk stigahæsti leikmaður Haukaliðsins sína fimmtu villu og þurfti að yfirgefa leikvöllinn. Við þetta fékk liðið aukin kraft og Haukaliðið spilaði stórkostlega vörn og sókn síðustu 5 min. leiksins og enduðu með að vinna leikinn með 6 stigum eftir gríðarlega mikla spennu. Frábær leikur hjá strákunum en þeir eru allir á yngra ári fyrir utan tvo stráka og því var þetta öflugur sigur hjá strákunum.

Unglingaflokkur kvenna spilaði við Njarðvík í undanúrslitum á laugardag og unnu leikinn með um 20 stigum. Það var þó ekki fyrr en í lokin sem Haukastelpurnar náðu að tryggja sigurinn. Leikurinn var nokkuð jafn í fyrri hálfleik þó svo að Haukar hafi leitt allan fyrri hálfleikinn og voru um 10 stigum yfir mestan hluta hálfleiksins en Njarðvík átti góðan endasprett og náði að minnka muninn niður i þrjú stig. Njarðvík byrjaði svo af krafti í þriðja leikhluta og náði forystunni í leiknum en Haukastelpurnar spiluðu grimma vörn í fjórða leikhluta og tryggðu sér öruggan sigur.