Björgvin Páll Gústavsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Hauka

Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Hauka og tekur samningur gildi í júlí 2017. Björgvin Páll er 31 árs gamall og hann hefur verið atvinnumaður i handbolta síðustu 9 ár. Björgvin Páll er núna á sínu fjórða tímabili með Bergischer HC í þýsku úrvaldsdeildinni, þar á undan spilaði hann með TV Bittenfeld, Kadetten Schaffhausen og SC Magdeburg.

Björgvin Páll verður einnig aðstoðarþjálfari liðsins ásamt því að hann mun koma að markmansþjálfun hjá félaginu. Hann mun starfa við Akademíu Hauka og þjálfa þar okkar efnilegu krakka ásamt Gunnar Magnússyni og Fannari Karvel styrktarþjálfara. Við eigum nú þegar nokkra markmenn sem eru í yngri landsliðum Íslands og mun Björgvin Páll einnig koma að þjálfun á okkar efnilegu markmönnum.

Björgvin mun einnig koma að markaðsmálum hjá félaginu. Björgvin mun vinna í því að markaðssetja klúbbinn innan- sem utanvallar. Hann hefur mikla reynslu bæði með landsliðinu og sem atvinnumaður í Þýskalandi og Sviss og það er klárt mál að hans reynsla mun nýtast félaginu mikið sem og hans menntun.

Það vita allir hversu góður leikmaður Björgvin Páll Gústavsson er og það er ljóst að það verður mikil hvalreki að fá hann til félagsins. Hann á vonandi sín bestu ár framundan á sínum ferli og það er ljóst að hans reynsla mun hjálpa bæði Gunna og strákunum í liðinu. Það er ljóst að okkar ungu markmenn munu fá betri þjálfun með tilkomu Björgvins og mun það vonandi skila bæði hjá Haukum og íslenska landsliðinu á komandi árum. 

Einnig erum við mjög stolt að fá Björgvin til liðs við okkar Handbolta Akademíu þar sem við leggjum mikinn metnað að okkar iðkenndur fái þjálfun í hæsta gæðaflokki. Við erum sannfærð um að okkar mikla vinna og metnaður sem við leggjum í okkar Akademíu muni skila bæði betri og fleiri leikmönnum upp í meistaraflokka félagsins.

image6