Bikarfjörið heldur áfram – Fríar rútuferðir

Eftir góðan sigur hjá stelpunum í sínum undanúrsltaleik í gær, fimmtudag heldur fjörið í Final 4 áfram í kvöld, föstudagskvöld, en nú er komið að strákunum í meistaraflokki karla í handbolta að spila sinn undanúrslitaleik en þeir spila kl. 17:15 í Laugardalshöll. Mótherjinn er ÍBV en þessi lið hafa leikið marga úrslitaleikina á síðustu árum og í leiknum í kvöld verður ekkert gefið eftir eins og í fyrri viðureignum þessa liða síðustu ár.

Það verður því um hörkuleik að ræða fyrir strákana og eiga þeir skilið stuðning Haukafólks. Hægt er að kaupa miða á Ásvöllum og á Tix.is en miðaverð er 2000 kr fyrir fullorðinn og 500 kr fyrir börn 6-15 ára. Fyrir þá sem vilja kaupa á netinu má nálgast miða á karlaleikinn fyrir fullorðna hér og barnamiða hér. Mikilvægt er að kaupa miða á þessum stöðum svo að Haukar njóti góðs af.

Það verður fjör á Ásvöllum fyrir leik en þá verður meðal annars hægt að fá andlistsmálun fyrir krakkana sem og að kaupa sérstakann bikarúrslitabol Hauka einnig  verður hægt að kaupa pulsur á vægu verði. Fjörinu á Ásvöllum líkur svo með fríum rútuferðum upp í Laugardalshöll en þær fara kl. 16:15 frá Ásvöllum en þær fara svo einnig heim eftir leik. Það er því um að gera fyrir allt Haukafólk að fjölmenna á leikinn og á Ásvelli fyrir leik og styðja strákana til sigurs og til þess að tryggja sannkallaðan Haukadag í höllinni á laugardag. Áfram Haukar!