Aron og Jóhann semja – Birgir Magnús framlengir

Jóhann Andri, Aron Elí og Birgir Magnús

Meistaraflokkur karla hefur fengið liðsstyrk fyrir komandi átök í Inkasso-deildinni næsta sumar en Aron Elí Sævarsson hefur skrifað undir lánssamning við félagið. Aron er 21 árs gamall, hann kemur frá uppeldisfélagi sínu Val. Aron leikur stöðu vinstri bakvarðar en hann hefur leikið meistaraflokksleiki með KH og nú síðast HK.

,,Mig langaði að fá tækifæri til að spila leiki og bæta mig. Haukar eru flott félag, metnaðarfullur þjálfari og leist mjög vel á hópinn.“ sagði Aron þegar hann var spurður út í hvernig það kom til að hann ákvað að koma til Hauka.

,,Byrjunin boðar gott upp á framhaldið og æfingarnar eru skemmtilegar og krefjandi. Engin ástæða önnur en að vera bjartsýnn fyrir sumrinu og ég hef fulla trú á því að liðið muni berjast í efri hlutanum og vonandi koma á óvart.“

Jóhann Andri Kristjánsson hefur einnig skrifað undir samning við félagið en hann er 27 ára fjölhæfur sóknarmaður sem er uppalinn í Fylki en hefur einnig leikið með HK, Elliða og Hvíta Riddararnum og hefur verið iðinn við kolann í markaskorun en hann hefur gert 38 mörk í 78 leikjum.  Hann hefur spilað frá 2013-2017 í bandaríska háskólaboltanum við frábæran orðstír.  Jóhann Andri kemur til með að verða lánaður til að byrja með í nýstofnað varalið félagsins.

,,Þegar Haukar höfðu fyrst samband við mig og lýstu fyrir mér hver plönin þeirra voru fyrir tímabilið og fyrir félagið til framtíðar þá leist mér strax vel á. Síðan þá hef ég séð hversu góð umgjörðin er hjá félaginu og mikill metnaður í gangi, og það sannfærði mig að rétta skrefið væri að koma hingað.“ sagði Jóhann við undirskriftina.

,,Ég hef aðallega væntingar til sjálfs mín að skila inn frammistöðu sem bæði ég og félagið getur verið stolt af, bæði innan og utan vallar“ bætti Jóhann við.

Þá hefur Birgir Magnús Birgisson framlengt samning sinn við félagið en hann er uppalinn hjá Haukum og á að baki 55 leiki fyrir Hauka og hefur skorað eitt mark. Birgir er flestum Haukamönnum kunnugur en hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið árið 2013, þá aðeins 16 ára gamall.

,,Það kom í rauninni ekkert annað til greina en að framlengja við Haukana og er ég mjög ánægður með að þetta sé gengið í gegn. Sumarið leggst gríðarlega vel í mig og það er flottur andi í hópnum og menn hafa hingað til lagt mikla og óeigingjarna vinnu á sig inná æfingum sem ég er fullviss að muni skila sér inná vellinum. Hópurinn lærði mikið á síðasta tímabili og með komu nýrra manna tel ég að við verðum betur undirbúnir fyrir erfiða og skemmtilega deild næsta sumar.“ sagði Birgir Magnús.

Aron Elí og Eiður Arnar

Jóhann Arnar og Eiður Arnar

Birgir Magnús og Eiður Arnar