Afar súrt tap gegn toppliði Þróttar

Ljósm.: Hafliði Breiðfjörð, Fotbolti.net

Ljósm.: Hafliði Breiðfjörð, Fotbolti.net

Við Hauka-fólk máttum þola afar súrt tap í kvöld gegn toppliði 1. deildar, Þrótti R.; lokatölur 1-2 og má segja að Þróttarar hafi fengið tvö mörk á silfurfati í fyrri hálfleik.

Fyrra mark Þróttara kom á þriðju mínútu leiksins en eftir um 15-20 mínútna leik voru okkar strákar að taka völdin á miðjunni en þá gerðu Þróttarar sitt annað mark á 20 mínútu sem komu eins og köld vatnsgusa framan í okkur.
Þrátt fyrir það að vera undir 0-2 héldu okkar strákar áfram og fengu nokkur fín færi í hálfleik.

Hauka-drengirnir mættu af fullum krafti í seinni hálfleik og uppskáru mark á 52 mínútu er Haukur Björnsson setti boltann í netið. Það má segja að okkar strákar hafi verið mun betri í seinni hálfleik og yfirspilað Þróttara á köflum og því afar súrt að ná ekki að jafna leikinn.

Þrátt fyrir tap í kvöld getum við verið stolt af okkar unga liði sem er að safna í reynslubankann með hverjum leik og ljóst er að mikill stígandi er í liðinu. Það verður því afar spennandi að fylgjast með strákunum í næstu leikjum og hvetjum við stuðningsfólk Hauka að fjölmenna á völlinn.

Næsti leikur er gegn BÍ/Bolungarvík á Ísafirði þann 7. júlí en næsti heimaleikur verður mánudaginn 13. júlí er HK kemur í heimsókn á Ásvelli.

Áfram Haukar!

Sjá umfjöllun um leikinn á Fotbolti.net:

Skýrslan

Viðtal við Tóta Dan