Flottar Hauka-stúlkur á Króknum

IMG_6297Flottar stúlkur í 6. og 7. flokki Hauka tóku þátt í Landsbankamótinu á Sauðárkróki um síðustu helgi en þátttakendur voru um 900 talsins.

Okkar stúlkur voru svo sannarlega foreldrum, Haukum og Hafnarfirði til fyrirmyndar og það var virkilega skemmtilegt að fá að taka þátt í mótinu sem pabbi stúlku í 7. flokki.

Við Hauka-foreldrar vorum búnir að hittast á fundi með aðal þjálfara liðanna, Andra Rafni Ottesen, sem og foreldráð beggja flokka þannig að skipulag var með hið besta móti auk þess sem löng reynsla af Króks-mótum úr foreldrahópnum kom til góða.

Tjaldbúðir Hauka efla vináttu

IMG_6306Mótið hófst snemma á laugardagmorgninum en nokkrir foreldrar voru mættir á fimmtudagskvöldinu Því var hægt að taka

frá tjaldstæði fyrir þá sem komu á föstudeginum en Hauka-fólk hefur jafnan tjaldað saman og myndað flottar tjaldbúðir sem styrkir vináttu stúlknanna og eflir tengsl foreldra.

Þrátt fyrir marga fótboltaleiki á laugardag og sunnudag skelltu stúlkurnar sér í sund, fóru í vatnsblöðrustríð, eltingaleiki o.fl. auk þess að taka þátt í kvöldskemmtun. Það voru því ansi þreyttar en glaðar stúlkur sem héldu heim á sunnudeginum með verðlaunapening um hálsinn.

Margt jákvætt að gerast – Skortur á aðstöðu

IMG_6493Það eru margir jákvæðir hlutir að gerast innan knattspyrnudeildar Hauka. T.d. var ein stúlka í Haukum, Alexandra Jóhannsdóttir, í U17 landsliðinu sem tók þátt í lokamótinu sem fram fór á Íslandi en hún tók einnig þátt í Norðurlandamóti U17 ásamt annarri Hauka-stúlku, Katrinu Hönnu Hauksdóttur. Við í Haukum höfum yfir að ráða afar færum þjálfurum í barna- og unglingastarfi félagsins og þá samanstanda meistaraflokkar félagsins af mjög mörgum uppöldum leikmönnum, líklega yfir 90% í meistaraflokki karla.

En betur má ef duga skal. Ljóst er að knattspyrnudeild Hauka þarf öflugri aðstöðu fyrir sína iðkendur og vonandi fáum við knattspyrnuhús á Ásvelli innan tíðar.

Fjölga þarf iðkendumIMG_6360

En þangað til þurfum líka að fjölga iðkendum, t.d. í 8., 7. og 6. flokki því það eru stoðirnar í félaginu okkar, og hvet ég foreldra stúlkna og drengja að mæta með sín börn á æfingar og taka þátt í skemmtilegu starfi innan knattspyrnudeildar Hauka.

Með Hauka-kveðju,

Halldór Jón Garðarsson
Pabbi í 7. og 8. flokki stúlkna og stjórnarmaður í knattspyrnudeild Hauka

  IMG_6320 IMG_6351  IMG_6387 IMG_6437 IMG_6459  IMG_6558 IMG_6584