Haukar – Valur laugardaginn kl. 16:00

Undanúrslit, leikur 1, Valur - Haukar, 16. apríl 2015Haukarnir sýndu snilldar leik í fyrsta leiknum í undanúrslita einvíginu á móti Valsmönnum að Hlíðarenda. Strákarnir sýndu sparihliðarnar og hafa verið að spila betur og betur eftir því sem á liðið hefur úrslitakeppnina.

Eftir tvo góða sigra á móti FH þá komu Haukarnir dýrvitlausir til leiks að Hlíðarenda og yfirspiliðu deildarmeistarana í fyrsta leiknum. Bæði sóknar- og varnarleikur var til fyrirmyndar og virtist ekki skipta máli hvaða leikmenn voru inná, allir stóðu sig einstaklega vel. Patti spilaði vel á mannskapnum og allir nýttu tækifærið. Öruggur sigur í fyrsta leik og nú hafa strákarnir náð fram heimavallarréttinum.

En þó svo að sigur hafi unnist í fyrsta leik, þá þarf að vinna þrjá leiki og því má ekki misstíga sig neitt á heimavelli. Leikur nr. II. veður laugardaginn 18. apríl í Schenkerhöllinni og það er mjög mikilvægt að ná sigri í þeim leik. En til þess þarf stuðning áhorfenda.

Okkar dyggu stuðningsmenn hafa ekki látið sitt eftir liggja og því og er mikilvægt að fjölmenna á laugardaginn og styðja strákana í baráttunni. Þeir hafa verið að spila einstaklega góðan handbolta og því má búast við gríðarlegri stemningu á leiknum.

Mætum snemma, allir í rauðu og höldum uppi stöðugri skemmtun allan leikinn.