Frábær sigur í fjórða leik – Oddaleikur á fimmtudag kl. 16:00 í Schenkerhöllinni

kristinnmarinossonvsirmars2015axelHaukarnir gerðu góða ferð til Keflavíkur og unnu þar gríðarlega mikilvægan sigur á heimamönnum í hörku leik. Leik sem bauð uppá allt sem áhorfendur vilja fá að sjá í íþróttaleik, spennu, dramatík, hörku, baráttu og ótrúlegan viðsnúning.

Strákarnir byrjuð ágætlega og leiddu eftir fyrsta leikhluta 22-20 en ljóst var á báðum liðum að spennustígið var hátt. Í ððrum leikhluta misstu Haukarnir aðeins dampinn og gengu heimamenn á lagið og náðu forystu og leiddu með 7 stigum í hálfleik. Keflvíkingar hertu sinn leik í öðrum leikhluta og spiluðu stífa vörn sem Haukarnir létu aðeins fara í skapið á sér og misstu einbeitingu.

Þriðji leikhluti þróaðist svipað og annar leikhluti, heimamenn að leiða en Haukarnir að brenna af opnum skotum og sniðskotum. Einföld færi fóru forgörðum og voru menn byrjaðir að hengja aðeins haus á þessum tímapunkti, þrátt fyrir góðan stuðning úr pöllunum.

Í fjórða leihluta snérist dæmið við. Haukar settu á svæðisvörn sem heimamenn réðu illa við og lentu ítrekað í að taka erfið skot er skotklukkan var að líða út. Haukarnir fengu sjálfstraustið og náðu að jafna leikinn er um 5 min. voru eftir af leiknum með fallegum þrist frá Kidda Marinós. Eftir það héldu engin bönd okkar strákum og þeir völtuðu yfir heimamenn og kláruðu leikinn með sjö stiga sigri.

Nú er oddaleikur í Schenkerhöllinni á fimmtudaginn kl. 16:00 og auðvitað hvetjum við alla til að mæta í rauðu og hvetja strákana til sigurs og um leið í undanúrslit.