Sögulegur 13 marka sigur Hauka á FH í gær

Eftir stórsigur Hauka á FH í Krikanum 5. mars 2015. 20-33.

Ánægðir Haukamenn eftir stórsigurinn í gær. Mynd Eva Björk.

Það hafa stór lýsingarorð fallið í miðlum dagsins um leik FH og Hauka í gær. Leikurinn var einfaldlega eign Hauka en eftir rúmlega 20 mínútna leik var staðan 2-15 og niðurlæging Fimleikafélagsins algjör. Leikurinn sveiflaðist síðan aðeins en hálfleikstölur voru 7-18. Haukapiltar byrjuðu seinni hálfleikinn af værukærni og náði FH að laga stöðuna í kjölfarið en í stöðunni 14-21 tók Patrekur leikhlé til að skerpa á sínum mönnum. Það virkaði og Haukavélin tók að mala á ný. Lokatölur leiksins voru 20-33 og sigurinn síst of stór. Meiðsli settu strik í reikninginn hjá báðum liðum og tvær ungar stórskyttur gátu ekki tekið þátt, Adam Haukur Baumruk hjá Haukum og Ísak Rafnsson hjá FH.

Ef við kíkjum aðeins á söguna í viðureignum þessara liða þá hafa Haukar áður sigrað FH með 13 mörkum en það var í nóvember 2012 þegar Haukar sigruðu 18-31. Smellið hér til að sjá umfjallanir um þann leik. Stærsti sigur FH á Haukum (innanhúss) var í Strandgötunni árið 1987 en þá sigruðu FH-ingar okkur Haukamenn með 16 mörkum og mikið er ég ánægður að það var fyrir tíma internetsins. Þá fengu Haukamenn að finna fyrir því í bænum líkt og FH-ingar þurfa að þola núna og því má segja að sagan sé komin í hring.

Haukamenn eiga hrós skilið fyrir sitt framlag í gær og vonandi er það þetta sem koma skal í baráttunni sem framundan er.

Áfram Haukar!

Höfundur: Sigurjón Sigurðsson