Haukar eru Coca Cola bikarmeistarar í 2. flokki karla

Bikarmeistarar árið 2015 í 2. flokki karla

Bikarmeistarar árið 2015 í 2. flokki karla. Mynd Eva Björk.

Um síðustu helgi fór fram mikil bikarveisla í Höllinni þegar leikið var til úrslita í Coca Cola bikarnum. Haukar voru með bæði mfl. lið sín í undanúrslitum en hvorugt náði í úrslitaleikinn þetta árið. Hjá yngri flokkunum áttu Haukar tvö lið. 4. karla eldra ár þurfti annað árið í röð að sjá á eftir bikarnum til FH en þeir töpuðu með minnsta mun, 25-24. Síðasti leikur helgarinnar var svo bikarúrslitaleikur í 2. flokki en þar áttust við Haukar og Valur. Þetta reyndist mikill baráttu leikur tveggja jafnra liða en Haukar sigu þó fram úr í fyrri hálfleik og náðu mest 4. marka forystu en staðan í hálfleik var 12-9 Haukum í vil. Valsmenn byrjuðu seinni hálfleik af miklum krafti og náðu að jafna leikinn og voru svo komnir með 2. marka forystu um hann miðjan en Haukapiltar komu til baka og mikil spenna var á síðustu mínútunni en besti maður vallarins, Janus Daði, skoraði jöfnunarmarkið fyrir Hauka þegar u.þ.b. 15 sekúndur lifðu leiks og frábær markvörður Hauka, Grétar Ari, varði síðasta skot Valsmanna og því þurfti að framlengja en þetta var fyrsta og eina framlenging bikarúrslita yngri flokkana. Eftir fyrri hluta framlengingar leiddi Valur með einu marki en þegar hálf mínúta var eftir af framlengingu kom Þórarinn Leví Haukum yfir. Valur fékk fékk síðustu sóknina og gat jafnað en aftur var það Grétar Ari sem varði og tryggði Haukum sigur, 26-25.
Haukar voru að spila mjög sterka 5-1 vörn en þeir Brimir Davíð og Janus voru sterkir varnarlega. Valur tók á það ráð að taka Janus úr umferð allan tímann en þrátt fyrir það spilaði hann einnig vel sóknarlega og var valinn maður leiksins. Einnig stóðu þeir sig vel sóknarlega Þórarinn Leví, Leonharð og Hallur Kristinn ásamt því sem Grétar Ari var frábær í markinu með 21 skot varið.

Markahæstir Hauka: Janus Daði 7, Hallur Kristinn Þorsteinsson 6.

Við óskum þessu sigurvegurum að sjálfsögðu til hamingju með þenna flotta sigur og bikarmeistaratitilinn.

Áfram Haukar!